Stærsti gróðinn að fá allt undir sama þak
Skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar segir meiri skólabrag yfir öllu.
„Þetta er allt annað líf í sinni dýpstu merkingu og okkur líður afskaplega vel hér. Þetta er frábært húsnæði og rúmar okkar starfsemi vel og það fer óskaplega vel um okkur. Hér er ekki einungis pláss fyrir kennslu heldur alla aðra vinnu kennaranna. Hún var ekki til staðar í hinum húsunum. Stofufjöldi, stofustærðir, æfingaðstaða, tónleikasalir sem við höfum aðgang að og biðaðstaða fyrir nemendur,“ segir Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Meiri skólabragur yfir öllu
Meðal stærstu breytinga við það að fara í nýtt húsnæði segir Haraldur vera að miklu meiri skólabragur sé á starfseminni en vonir stóðu til. Aðstaða sé fyrir hljóðfærakennslu í öllum grunnskólum og áður hafi töluvert margir kennarar verið áfram í skólunum því aðstaðan var betri en í tónlistarskólunum. „Kennarar hittust í raun aldrei nema þegar kennarafundir voru. Í dag hittist fólk og tekur saman kaffi- og matartíma. Þar með verða miklu meiri fagleg og persónuleg samskipti sem skila sér í meira samtstarfi og starfsánægju. Það er svo nauðsynlegt í kennslu að geta borið saman bækur sínar. Vinnustaðurinn verður einnig eftirsóknarverðari fyrir vikið og stærsti gróðinn er að fá allt undir sama þak.“
Íhuguðu að fjárfesta í sendibíl
Húsnæðið í Hljómahöll er til mikillar fyrirmyndar og skipar sér í fremstu röð í Evrópu. Haraldur og félagar hafa frá flutningi skólans tekið á móti miklum fjölda gesta, m.a. kennarahópum sem skoða aðstöðuna á starfsdögum og um leið forvitnast um starfsemi skólans. „Hún hefur vakið landsathygli. Og um leið hafa hóparnir nýtt sér ýmsa þjónustu sem í boði er í bænum og það er jákvætt fyrir samfélagið,“ segir Haraldur. Spurður um hvort nemenafjöldi hafi aukist mikið segir hann það ekki vera. „Það getur vel verið að skólagjöldin hafi einhver áhrif en þau eru samt ekki svimandi há. Mitt markmið er að ná skólanum upp í 400 nemendur fyrir utan forskólann, við erum um 360 núna. Þetta snýst líka um heimildir til stöðugilda og þar erum við þokkalega sett, en þyrftum samt aukingu.“
Frá flutningi í nýja húsnæðið.
Skólastarf á að snúast um gæði
Haraldur tekur þó fram að skólastarf þurfi þó fyrst og fremst að snúast um gæði. „Það er ekki nóg að hafa marga nemendur, við þurfum að bæta okkur þar sem við vitum að við getum bætt okkur og halda áfram að gera vel það sem við gerum vel. Það skilar sér klárlega. Við getum a.m.k. ekki kennt aðstöðunni um ef við viljum gera betur,“ segir hann hlæjandi og bætir við að nýja húsnæðið eigi eftir að sækja í sig veðrið í framtíðinni og skólinn líka. „Við vorum alltaf með sendibíl sem fór með þung hljóðfæri og búnað á milli húsa. Á tímabili var rætt í gríni og alvöru hvort skólinn ætti að fjárfesta í sendibíl. Það var engin aðstaða til tónleikahalds í hinum húsunum og allir flutningar slíta hljóðfærum og því verður öll meðferð á búnaði eftir því. Núna færum við okkur bara yfir í Berg og Stapa,“ segir Haraldur, afar bjartsýnn fyrir hönd allra sem nýta húsið.
VF/Olga Björt