Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stærðin skiptir máli!
Þriðjudagur 10. febrúar 2004 kl. 16:41

Stærðin skiptir máli!

Í gegnum tíðina hafa karlmenn litið á hamar sem sitt verkfæri og oftar en ekki er hamarinn tákn um karlmennskuna. Að halda á hamri í hönd segir þeim sem sjá að viðkomandi sé karlmennskan uppmáluð. Víkurfréttir ákváðu að kanna málið og ná tali af smiðum hjá Húsagerðinni sem reisa fjölbýlishús við Heiðarenda í Keflavík.
Það var slagveðursrigning á byggingasvæðinu og smiðirnir voru allir klæddir í appelsínugula sjóstakka og þeir voru rennandi blautir. Upp á þaki voru þrír smiðir að vinna og voru þeir allir í smiðsvestum. 
Agnar eða Aggi eins og hann er kallaður er 26 ára gamall. Hann stundar nám í húsasmíði við Öldungadeild Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hann segist hafa stefnt lengi að því að verða smiður. En hvernig er að vinna upp á þaki í rigningu og roki? „Það er mun betra heldur en í slyddu,“ svarar Aggi og kippir sér varla upp við spurninguna, enda byggist íslensk veðrátta að miklu leiti á roki og rigningu. „Að vinna í rigningunni er bara hluti af starfinu. Það er í lagi á meðan manni verður ekki kalt á höndunum.“
Oft vinna smiðir í byggingum sem teygja sig hátt frá jörðu og þegar Agnar er spurður að því hvort hann sé lofthræddur er svarið stutt og laggot: „Nei, það er ekki til lofthræðsla í mér.“ Með Agga á þakinu eru smiðirnir Hafþór og Björgvin að vinna. Þegar þeir eru spurðir út í hamrana og karlmennskuna sem þeim tengist segja þeir að hamrarnir skipti máli. „Þetta er svona svipað og þegar karlar metast um hver eigi flottari jeppa,“ segja þeir brosandi. Upp úr kafinu kemur að Aggi er með stærsta hamarinn og er ekki laust við að það votti fyrir öfund hjá Hafþóri og Björgvini þegar þeir líta á verkfærið hjá kollega sínum.
Strákarnir segja að það sé góður mórall í hópnum þrátt fyrir meting um það hver sé með stærsta hamarinn. En að öllu gríni slepptu þá eru hamrarnir jú nauðsynlegasta verkfæri smiðsins og hamarinn er valinn með þarfir hvers og eins í huga - en stærðin skiptir máli!

Myndirnar: Smiðirnir Hafþór, Björgvin og Agnar á þaki fjölbýlishússins við Heiðarholt sem Húsagerðin reisir. Agnar er með stærsta hamarinn eins og sést á neðri myndinni. Stærðin skiptir máli.

VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024