STÆLTIR STÓÐHESTAR SLÁ Í GEGN - REVÍA FRÁ ÓMARI VÆNTANLEG Í HAUST
Guðný Kristjánsdóttir formaður LK í viðtali:Stæltir stóðhestar slá í gegn- revía frá Ómari væntanleg í haustSýningar Leikfélags Keflavíkur á Stæltum stóðhestum hafa gengið vonum framar og eru þær orðnar 10 talsins. Uppselt var á sýningar bæði föstudag og sunnudag í síðustu viku og að sögn Guðnýjar Kristjánsdóttir, formanns Leikfélags Keflavíkur þurftu margir frá að hverfa.Það er ekki oft sem Leikfélagið hefur orðið að vísa fólki frá en undanfarnar sýningar höfðu ekki gengið sem skyldi og höfðu leikfélagsmenn áhyggjur af því um tíma að álög væru á húsinu.„Við vitum það núna að það eru svo sannarlega ekki álög á húsinu enda höfum við hér fullkomið leikhús. Við höfum verið að setja upp metnaðarfull leikverk sbr. Gaukshreiðrið og Máttarstólpa þjóðfélagsins en við urðum sérstaklega fyrir vonbrigðum með þær viðtökur sem sú sýning fékk enda metnaðarfull og heimamaður sem leikstýrði og þýddi. Það kom okkur á óvart en móttökurnar núna gera það ekki enda létt og skemmtilegt stykki á ferðinni og fjöldi nýrra leikara sem bæst hafa í hópinn”, segir Guðný.Stemmningin er góð hjá LK og getur vart verið annað. „Það er ólíkt skemmtilegra að leika fyrir 130 manns heldur en 10 eða 15”, segir Guðný og brosir. „Frumleikhúsið er gott hús enda leist nefnd sem hingað kom í skoðunarferð frá Þjóðleikhúsinu vel á. Þau höfðu frétt af sýningunni og mættu óbeðin en sýningin kemur sterklega til greina á fjalir Þjóðleikhússins en þar er alltaf sýnd ein áhugaleiksýning á ári”.Síðasta sýning stóðhestanna er fyrirhuguð þann 15. maí n.k. en þá hverfur einn leikaranna til útlanda. Þess má geta að einn aðalleikara sýningarinnar, Davíð Guðbrandsson, hefur fengið inngöngu í leiklistarskóla Íslands og hefur þar nám nk. haust. Guðný segir það ánægjulegt hversu margir Suðurnesjamenn þ.á.m. fyrrum félagsmenn eru á leið, ef ekki komnir, á atvinnuleikhússfjalirnar og nefnir þar t.d. Friðrik Friðriksson leikara, Jón Pál Eyjólfsson og Sigurð Eyberg Jóhannesson sem stunda leiklistarnám í Lundúnum og nú síðast Davíð Guðbrandsson. Flóran virðist því rík á Suðurnesjum þessa dagana.Framtíð Leikfélags Keflavíkur er bjartari en nokkru sinni en Guðný segir okkur frá því að Ómar Jóhannsson sitji nú við skriftir á nýrri revíu fyrir félagið sem stefnt er að því að frumsýna næsta haust. Viðræður standa yfir við Andrés Sigurvinsson leikstjóra um að leikstýra verkinu en hann leikstýrir einmitt Stæltum stóðhestum. „Við höfum lært það að Suðurnesjamenn eru þyrstir í revíur, og þá sérstaklega ef þær fjalla um þá sjálfa”, segir Guðný.Hún segir Leikfélag Keflavíkur mjög þakklátt fyrir þær góðu mótttökur sem Stæltu stóðhestarnir hafa fengið og hafi þær heldur betur hresst félagsmenn við þótt ekki hafi þeir setið auðum höndum.„Ég vil að lokum minna á aðalfund okkar sem verður haldinn þann 20. maí. Þeir sem vilja kynnast starfinu nánar og taka þátt eru alltaf velkomnir”.