Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 9. apríl 1999 kl. 20:42

STÆLTIR STÓÐHESTAR

Áhorfendur eiga eftir að leka niður af stólunum Æfingar standa nú yfir af fullum krafti hjá Leikfélagi Keflavíkur á verkinu Stæltir stoðhestar sem frumsýnt verður þann 16. apríl n.k. en eins og nafnið gefur til kynna má gera ráð fyrir miklum hamagangi á fjölum Frumleikhússins. Blaðamaður Víkurfrétta leit inn á æfingu sl. þriðjudagskvöld og spjallaði við þau Huldu Guðrúnu Kristjánsdóttur, Jón Marinó Sigurðsson og Sigurð Arnar Sigurþórsson sem taka þátt í sýningunni. Hvernig verk er þetta eiginlega? Jón Marinó: „Bara ég, og stæltir líkamar” (ekki sagt af mikilli alvöru). Hulda Guðrún: „Þetta er um stráka sem strippa og hlutverk mitt er að hjálpa þeim við það”. Jón Marinó: „Verkið er lauslega byggt á myndinni Lady’s night en leikgerðin er öll í okkar höndum. Við fengum þessa hugmynd, fannst hún góð og drifum í að þýða þetta. Hulda Guðrún: „Þetta hefur verið nokkurn tíma í undirbúningi, m.a. vegna þess að við biðum eftir leikstjóranum okkar, Andrési Sigurvinssyni í mánuð þegar hann var veikur. Hann leikstýrði áður hjá L.K. fyrstu Keflavíkurrevíunni fyrir u.þ.b. 10 árum síðan”. Sigurður Arnar: „Hann leikstýrði Brjáluðum konum hjá Vox Arena um síðustu páska”. Hafið þið leikið áður? Hulda Guðrún: „Ég kom bara hingað til að ná í dót og áður en ég vissi af var ég komin í þessa sýningu”. Jón Marínó: „Ég hef leikið í nokkrum sýningum hjá L.K.” Sigurður Arnar: “Ég hef leikið með Vox Arena og svo var ég í Jólaseríunni hjá L.K. fyrir jólin. Ég ætlaði að hætta eftir þá sýningu, en hætti svo við”. Hversu margir taka þátt í sýningunni? Hulda Guðrún: „Ætli það séu ekki um 20 manns. Aðalleikarar eru átta en það koma margir við sögu. Um hvað snýst þessi sýning? Jón Marinó: „Hún fjallar um vinahóp og eina stelpu. Strákarnir í hópnum eru í slæmum málum, þeir eru allir atvinnulausir rónar og dusilmenni. Ég er t.d. pirraður út af konunni minni henni Dísu (glott). Ég held að fólk eigi hreinlega eftir að leka af stólunum niður á gólf og ég segi ekki meir”. Hvað er svona heillandi við þetta? „Þetta er það sem fólk vill sjá, nú og svo fáum við loksins að dansa (hlátur). Eftir dramatískar sýningar var einfaldlega kominn tími á eitthvað annað hjá L.K..Þetta er nær okkur í tíma og léttleikinn ræður ríkjum.” STÆLTU STÓÐHESTARNIR FRUMSÝNDIR 16. APRÍL Eftir mikinn hamagang og ótal áföll er nú komið að því að gamanleikritið Stæltu Stóðhestarnir verði frumsýnt hjá Leikfélagi Keflavíkur í Frumleikhúsinu. Æfingar hafa gengið vel undanfarið og hefur leikstjórinn Andrés Sigurvinsson fyrirskipað að leikhúsið skuli vera harðlega lokað öðrum en nánustu aðstandendum sýningarinnar. Ýmsir hafa komið að máli við leikfélagsfólk og spurt hvort sýningin fjalli um bæjarstjórnina, líkamsræktartröll eða hestamannamót. Ekkert skal gefið upp annað en að sjón er sögu ríkari. Þá hefur leikfélagið orðið vart við mikinn áhuga bæjarbúa á sýningunni og eru þegar farnar að berast miðapantanir þannig að á sumar sýningar eru aðeins örfá sæti laus. Leikritið verður frumsýnt föstudaginn 16. apríl kl. 20.30 og er uppselt á frumsýningu. Upplýsingar um sýningardaga og miðapantanir eru í Frumleikhúsinu, sími 421 2540 Erfið nótt á að baki! - önnur tilraun gefst í nótt... Samkvæmt fræðunum er þetta dagurinn sem skiptir máli í barneigna„bissnessnum“. Hyggist einhvert Suðurnesjaparið eignast fyrsta barn nýrrar aldar er tækifærið í dag, 8. apríl. Afar óformleg könnun VF sýndi svo ekki var um að villst að meiri ásókn hefur verið í þungunarpróf lyfsalanna undanfarið. Þá er merkjanlegur tímabundinn samdráttur í sölu „öryggisgúmmís“. Þau pör eða hjón sem halda að erfiði næturinnar hafi mistekist hafa enn tækifæri og því ekkert annað að gera en fara bara snemma í háttinn í kvöld, skella Dýrunum í Hálsaskógi undir geislann og ná hámarkinu í piparkökusöngnum. „ ... eitt kíló makarííííín...“ Ef Dýrin í Hálsaskógi eru ekki til á heimilinu mælum við með rauðvíni og kertaljósi... í upphitun!
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024