Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Staðurinn minn: Gott að villast í Brussel
Kristinn ásamt Tinnu vinkonu sinni. Þau standa fyrir gönguferðum um borgina þar sem farið verður um sögufrægar slóðir Brussel,
Þriðjudagur 26. apríl 2016 kl. 08:00

Staðurinn minn: Gott að villast í Brussel

Keflvíkingurinn Kristinn Guðmundsson segir frá borginni sinni

Listamaðurinn Kristinn Guðmundsson hefur búið í Brussel í fjögur ár. Kristinn sem er Keflvíkingur, elskar borgina sem hann segir fulla af lífi og fjölmenningu. Hann segist ennþá villast í borginni en það þykir honum mikill kostur. Borgin er samsett úr mörgum litlum bæjum sem hafa þó sína sjálfstjórn. Það gerir gatnakerfi borgarinnar afar flókið. Kristinn er þó vel kunnugur borginni og mun í sumar standa fyrir gönguferðum um borgina ásamt vinkonu sinni. Þar verður farið um sögufrægar slóðir Brussel, farið inn á pólitík, sögu og skringilega skúlptúra. Ásamt því að farið verður á staði sem jafnvel heimamenn vita ekki einu sinni að séu til. Súkkulaði, belgískur bjór, áhugaverður arkitektúr ásamt æðislegu listalífi og skemmtilegu fólki. Kristinn deilir hér nokkrum af eftirlætisstöðum sínum í borginni.


Flagey/Abbaye de la cambre
„Torgið Flagey er í næsta nágrenni við mig, þar eru skemmtilegir markaðir um helgar þar sem hægt er að fá sér eitthvað gourmet og hvítt með. Ég ákvað að setja Abbaye de la cambre með Flagey því þetta er alveg í næsta nágrenni við hvort annað. Ég fer að skokka í garðinum hjá munkunum á meðan þeir húka inni og brugga bjór eða fara með bænirnar sínar. Í garðinum hjá þeim er frönskumælandi listaháskólinn og er alltaf gaman að sjá listaspírurnar og munkana þarna saman.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kanall/Molenbeek
„Kanallinn í Brussel er mjög svo spennandi svæði. Kanallinn er enn notaður sem iðnaðarsvæði en þar spretta upp kaffihús og núna síðast heilt listasafn. Kanallinn er það sem sker miðbæ Brussel við hið alræmda Molenbeek hverfi sem hefur verið voða mikið í fréttum undanfarið. Þó að fréttirnar séu svo hræðilegar þá er Molenbeek mjög skemmtilegt svæði þar sem fólk spjallar jafnt á arabísku og frönsku. Ef ég væri í íbúðarkaupahugleiðingum þá myndi ég hiklaust kaupa mér íbúð í Molenbeek.“

Jeu De Bal
„Jeu De Bal er mjög skemmtilegur skranmarkaður, hann er opinn frá 06:00 til 14:00 á daginn og verðin fara hríðlækkandi eftir því sem líður á daginn, gæðin hugsanlega líka. Mér finnst rosalega gaman að fara þangað og fá innblástur, það er nefninlega allt á milli himins og jarðar þarna. Einnig langar mig að nefna South Market sem er við Gare Du Midi lestarstöðina, hann er einungis á sunnudögum frá klukkan 06:00 til 14:00, þar er einnig hægt að fá allt á milli himins og jarðar. Ég reyni að fara þangað í hverri viku til að kaupa inn grænmeti og ávexti fyrir vikuna (fullur innkaupapoki af allskyns góðgæti er að fara á cirka 10-15 evrur.)“

Rue du Flandre
„Rue Du Flandre er ein af mínum uppáhalds götum borgarinnar. Þar er allt saman svo gourmet og kósý. Á Rue Du Flandre eru bestu slátrarar borgarinnar og bestu gourmet matarbúðirnar sem sjá veitingarstöðunum í kring fyrir grænmeti og nánast öllu saman. Þar er borðaður fiskur á götunum og drukknir romm kokteilar sem eru seldir úr gömlum Citroen. Þar eru allskyns skemmtilegar fatabúðir líka, second hand og nýtt og tískulegt. Elska þessa götu!“

Konunglegu gróðurhúsin í Laeken
„Konunglegu gróðurhúsin í Laeken eru alveg fáranlega falleg. Því miður eru þau bara opin nokkrar vikur á ári, rétt um vorið, sem sagt núna. En það eru jurtir hvaðanæfa úr heiminum. Það er gaman að labba þarna um allt þetta flæmi. Ekki nóg með að þetta eru konunglegu gróðurhúsin þá er þetta í konungsgarðinum allt saman voðalega royal.“

Nánari upplýsingar um gönguferðir Kristins er að finna á Facebook undir hópnum Gengið í Brussel og á Instagram Gengid_i_Brussel ásamt tölvupóstfanginu [email protected]