Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Staðurinn minn: Betri útgáfan af Balí
Sunnudagur 3. júlí 2011 kl. 14:41

Staðurinn minn: Betri útgáfan af Balí

„Uppáhaldsstaðurinn minn er eyja í Indónesíu sem heitir Gili Trawangan sem er hluti af Gili-eyjaklasanum en þangað ætluðum við sem ferðuðumst saman aldrei að fara enda höfðum við aldrei heyrt minnst á eyjuna. Um vorið 2006 var sjö mánaða ferðalagi mínu um heiminn að ljúka og hópurinn sem ég ferðaðist með hlakkaði til að eyða síðustu vikunum í rólegheitunum á Balí en þegar við komum þangað urðum við fyrir miklum vonbrigðum,“ segir Tómas Young 29 ára Keflvíkingur sem deildi með okkur þeim stað sem honum þykir hvað mest koma til í veröldinni.

„Sú ímynd sem við höfðum af staðnum stóðst engan veginn væntingar okkar. Risastórar hótelkeðjur, verslunarmiðstöðvar og diskótek blöstu við okkur ásamt vestrænum „gullmolum” á borð við Hard Rock, McDonalds, Pizza Hut o.þ.h. Ímynd okkar fól ekki í sér þann steinsteypu skóg sem tók á móti okkur.“



„Á veitingastað sem við fórum á þetta fyrsta kvöld okkar á Balí kynntumst við nokkrum innfæddum sem sögðu okkur frá eyju sem hægt væri að komast á frá Bali með örstuttri flugferð – um 10 mínútna flug ef ég man rétt – yfir á eyju sem heitir Lombok og að þaðan væri hægt að komast á eyjuna með stuttri bátsferð. Við ákváðum að sætta okkur ekki við að vera á Balí og stukkum á þessa tillögu innfæddra.“

„Eyjan stóðst allar þær væntingar sem þeir lýstu fyrir okkur en eyjan var eiginlega eins og við höfðum ímyndað okkur Balí. Eyjan var ótrúlega falleg. Hún var það lítil að það tók aðeins um tvær klukkustundir að ganga í kringum hana. Á eyjunni voru engir malbikaðir vegir og þar af leiðandi engir bílar né mótorhjól og friðsældin því í fyrirrúmi. Þá voru heldur engir hundar á eyjunni né sölumenn að áreita okkur. Þetta þótti okkur allt miklir og góðir kostir en þarna höfðum við verið rúmlega þrjá mánuði í Suðaustur-Asíu þar sem einmitt var búið að vera meira af mótorhjólum, bílum, hundum og sölufólki heldur en gengur og gerist annars staðar í heiminum. Á eyjunni var frábært en rólegt skemmtanalíf, mikið af köfunarstöðum og hægt að snorkla beint af ströndinni með skjaldbökum og fallegum stórum fiskum í einum tærasta sjó sem ég hef séð. Eyjaskeggjar stunda brimbretti grimmt á eyjunni en það var þarna sem ég komst að því að ég er enginn náttúrutalent þegar kemur að brimbrettum.“



„Það var kærkomið að enda strangt sjö mánaða ferðalag á jafn friðsælum stað og Gili Trawangan. Í hvert sinn sem mér finnst vera of mikið um að vera og hugurinn leitar utan landsteinanna dagdreymir mig um að komast aftur til eyjunnar fjarri öllu amstri hversdagsins.“


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024