Staðurinn minn - Háaloftið heima í Njarðvík eða Venezuela?
Unnur Svava Sverrisdóttir er þrítug Njarðvíkurmær sem hefur ferðast víða um dagana. Hún hefur m.a. verið skiptinemi á Ítalíu og á sér nánast annað heimili á Spáni. Við fengum Unni til þess að segja okkur frá þeim stað sem hún hefur sérstakar mætur á en það reyndist henni þrautinni þyngra.
„Eftir töluverða viðveru á háaloftinu heima brosandi yfir gömlum myndaalbúmum hefur val mitt á staðnum mínum orðið mér enn þungbærara. Venezuela gæti verið staðurinn minn. Ég, foreldrar mínir og bróðir dvöldum þar í fimm vikur 1997, bjuggum hjá innfæddum og fórum hringferð um landið. Sú ferð markaði okkur öll og styrkti. Landið og fólkið þar er virkilega fallegt. Stór hluti þjóðarinnar býr við mikla efnislega fátækt en mikið ríkidæmi hvað varðar gleði, samkennd og ást. Annað land sem hefur skipað sér sess í minningabankanum mínum er Ítalía, þar dvaldi ég í sex mánuði sem skiptinemi og kynntist frábærri menningu, blóðheitu fólki og ómótstæðilegum mat. Við vinkonurnar fórum svo í bakpokaferðalag um Ítalíu sem seint verður afmáð úr hugum okkar. Spánn gæti einnig skorað hátt sem staðurinn minn, þar á pabbi minn annað heimili sem við fjölskyldan höfum dvalið á, hvílík afslöppun, flatmögun og skemmtun.“
„Ísland, undur veraldar er hugsanlega staðurinn minn. Sem barn ferðuðumst við um allt hálendi landsins, vetur og sumur í hlátri og söng. Jöklar landsins, norðurljósin og Landmannalaugar á köldum vetrarkvöldum hafa heftað hamingjumynd í höfuð mér. Indland og Afríka hafa allt að bera til að vera staðirnir mínir en þangað á ég enn eftir að fara. Áfram gæti ég haldið þar sem allir staðirnir sem ég hef séð, allt fólk sem ég hef hitt og samferðafólk mitt hefur gefið mér eitthvað, eftir situr umburðarlyndi, nægjusemi, sveigjanleiki, sterk fjölskyldu og vinatengsl, gleði og víðsýni. Með allt undantalið í huga virðist niðurstaðan sú að staðurinn minn hlýtur að vera hugur minn og hjarta, þar sem ég geymi minningarnar, hláturinn og ástina fyrir fólki og lífinu. Nema að staðurinn minn sé bara háaloftið heima í Njarðvíkunum.“