Staða ungmenna á vinnumarkaði: Valur Axel Axelsson
Valur Axel Axelsson er sextán ára, í sumar ætlar hann að vinna sem leiðbeinandi í Listaskóla barna og á Pylsuvagninum í Keflavík. Valur ætlar einnig að nýta sumarið í að ferðast með fjölskyldunni og æfa dans en hann er í San Sebastian að keppa á heimsmeistaramótinu í dansi sem stendur. Valur segir það reynast erfitt fyrir ungmenni sem fædd eru árið 2005 að finna sér vinnu.
Af hverju ákvaðst þú að sækja um þessar vinnur?
Ég sótti um í Listaskólanum því ég hef unnið þar áður og finnst gaman að vinna með börnum. Á Pylsuvagninum sótti ég um því mig vantaði vinnu og vissi að þar væri skemmtilegt fólk.
Hvað ert þú að gera í vinnunni?
Í Listaskólanum er ég að leiðbeina börnum í allskonar listrænum verkefnum og á Pylsuvagninum er ég að gera mat og þrífa.
Hvað er það skemmtilegasta við vinnuna þína?
Það skemmtilegasta við Listaskólann eru allir frábæru krakkarnir og fólkið sem ég fæ að vinna með og á Pylsuvagninum er það allt fólkið sem ég vinn með.
Var erfitt fyrir þig að finna sumarvinnu?
Nei, það var frekar auðvelt fyrir mig.
Hvernig finnst þér staða ungs fólks á vinnumarkaðnum vera núna?
Hún er frekar góð, nema fyrir ungmenni sem eru fædd árið 2005, þau fá ekki vinnu hjá vinnuskólanum og á flestum öðrum stöðum er verið að leita starfsmönnum sem eru fæddir 2004 eða fyrr.