Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Staða ungmenna á vinnumarkaði: Hreggviður Hermannsson
Hreggviður Hermannsson, yfirflokkstjóri í Vinnuskóla Reykjanesbæjar
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
laugardaginn 18. júní 2022 kl. 10:58

Staða ungmenna á vinnumarkaði: Hreggviður Hermannsson

Hvar ætlar unga fólkið á Suðurnesjum að vinna í sumar?

Hreggviður Hermannsson er 22 ára, í sumar ætlar hann að vinna sem yfirflokkstjóri í Vinnuskóla Reykjanesbæjar. Auk þess að vinna ætlar Hreggviður að undirbúa sig fyrir BS skrif og spila fótbolta með Njarðvík. Hreggviður segir mikla eftirspurn en lítið framboð þegar kemur að vinnu fyrir ungmenni í Reykjanesbæ. 

Af hverju ákvaðst þú að sækja um þessa vinnu?

Þetta er skemmtilegt og sveigjanlegt starf. Ég er búinn að vera flokkstjóri í fjögur ár það var kominn tími á að taka skrefið og gerast yfirflokkstjóri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað ert þú að gera í vinnunni?

Þetta er náttúrulega skrifstofuvinna. Eins og staðan er núna er fólk að sækja um og við þurfum að setja þá í hópa. Síðan þarf að svara símtölum frá foreldrum og hafa samband við foreldra ef einhver er að skrópa eða ef eitthvað kemur upp á.

Hvað er það skemmtilegasta við vinnuna þína?

Það fylgir þessu ákveðin ábyrgð og kannski smá pressa og ég fæ svona smá „kikk“ út úr því. Ég fýla líka bara stemmninguna hérna. 

Var erfitt fyrir þig að finna sumarvinnu?

Já, aðallega út af því ég er í fótbolta og því finnst mér sveigjanleiki mikilvægur þáttur. Þessi vinna var eiginlega það eina í stöðunni. Annað sem var í boði var bara vaktavinna sem hentar ekki beint vel með fótboltanum.

Hvernig finnst þér staða ungs fólks á vinnumarkaðnum vera núna?

Mér finnst einhvern veginn, sérstaklega hérna í Reykjanesbæ, eins og að það sé lítið í boði fyrir ungt fólk annað en að vinna á bílaleigu, að sjá um að þrífa bílana eða eitthvað svoleiðis. Það er kannski erfitt að svara þessu út af því að ég hef alltaf unnið í vinnuskólanum en ég er að sjá það núna að það eru margir sem sóttu um í átján ára hópnum hjá okkur en bara tuttugu komast að. Mér finnst það alveg endurspegla stöðuna fyrir þennan hóp.