Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Staða smáríkja á tímum miskunnarlausrar samkeppni stórveldanna
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 16. apríl 2023 kl. 06:08

Staða smáríkja á tímum miskunnarlausrar samkeppni stórveldanna

Njarðvíkingurinn Hilmar Þór Hilmarsson hefur gefið út sína fjórðu bók. Ísland hefur að mikla sérstöðu meðal NATO-ríkja. Ekki raunhæft að stofna her.

Njarðvíkingurinn Hilmar Þór Hilmarsson, sem starfar nú sem prófessor við Háskólann á Akureyri var að gefa út bók hjá virtu vísindaforlagi, Routledge. Bókin ber titilinn: The Nordic, Baltic and Visegrád Small Powers in Europe: A Dance with Giants for Survival and Prosperity. Hilmar var nýlega á heimaslóðum og átti spjall við Pál Ketilsson, ritstjóra Víkurfrétta.

Þetta er fjórða bókin sem þú skrifar á undanförnum tíu árum. Um hvað fjallar þessi bók?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Bókin fjallar um stöðu Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Visegrád-landanna á tímum óvissu og aukinnar samkeppni stórveldanna. Flestir hér þekkja til Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna en kannski minna til Visegrád-landanna, sem eru Pólland, Slóvakía, Tékkland og Ungverjaland. Undantekning er Pólland sem er sérstaklega mikilvægt fyrir okkur, m.a. vegna þess hversu margir Pólverjar hafa flutt til Íslands og starfa hér.

Það er víða komið við í bókinni. fjallað er um stöðu þessara landa og bandalaga þeirra í Evrópu, stækkun ESB, vandamál evrusvæðisins, Brexit og áhrif COVID-19. Einnig er fjallað um stækkun NATO, harðnandi samkeppni Bandaríkjanna og Kína og um áhrif og yfirráð í heiminum og hvernig smáríki geta best hagað samskiptum sínum við stórveldi á tímum óvissu og spennu. Pólland er eina landið í þessum hópi sem ekki telst smáríki en Pólland hefur samt séð ástæðu til að vera bæði í NATO og ESB. Ítarleg umfjöllun er um Úkraínustríðið sem hefur haft áhrif á öll þessi lönd og þróun mála í Póllandi og Úkraínu eftir fall Sovétríkjanna er borin saman í sérstökum kafla.“

Stórveldasamkeppnin

„Öll löndin í þessum þremur hópum eru undir öryggisregnhlíf Bandaríkjanna og taka þátt í Evrópusamrunanum þó þau geri það á mismunandi hátt. Öll eru á evrópska efnahagssvæðinu og í Schengen. Öll löndin eru í NATO nema Finnland og Svíþjóð sem eru á leiðinni þangað. Þegar fjallað er um þessi lönd er líka mikilvægt að skilja stóru myndina sem einkennist af samkeppni stórveldanna Bandaríkjanna, Kína og Rússlands. Flestar mikilvægar ákvarðanir í alþjóðasamskiptum eru teknar af stórveldum. Nokkrir kaflar í bókinni fjalla þess vegna um þessa stórveldasamkeppni og áhrifin á smærri ríki.“

Hvernig er staðan í öryggismálum Íslands?

„Smáríki eins og Ísland eru alltaf í viðkvæmri stöðu í öryggismálum, samt held ég að staða Íslands sé nokkuð góð eins og ástandið er í heiminum í dag. Við erum langt frá núverandi stríði í Evrópu og hugsanlegum átakasvæðum í Asíu. Við erum aðilar að NATO og með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Við erum ekki með landamæri við óvinveitt ríki og eigum ekki í deilum við stórveldi. Við erum með aðgang að sameiginlegum markaði ESB og samskiptin við ESB eru almennt góð. Þó við séum undir öryggisregnhlíf Bandaríkjanna eigum við sem smáríki að mínu mati að forðast deilur við stórveldi eins og Kína. Ísland hefur sögulega verið í deilum við stærri ríki eins og Bretland vegna útfærslu landhelginnar en þá var efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar í húfi.“

Er að þínu mati raunhæft að Íslendingar stofni eigin her?

„Ég held að það sé ekki raunhæft fyrir Ísland að stofna eigin her. Íslenskur landher yrði aldrei nægilega öflugur til að verja landið yrði á okkur ráðist af einu stórveldanna. Við höfum heldur ekki ráð á að vera með flugher jafnvel þó við værum bara með fjórar til fimm þotur. Orrustuþotur eins og F-35 þotur og rekstur þeirra er of dýr fyrir okkur. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum bæði með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og meðal stofnríkja NATO. Ísland hefur að mínu mati mikla sérstöðu meðal NATO-ríkja og ég álít að við þurfum að bjóða NATO það sem við ráðum við og getum gert vel.“

Öflugri landhelgisgæsla

„Framlag Íslands gæti verið enn öflugri landhelgisgæsla með auknu eftirliti á Norður-Atlantshafi og á Norðurslóðum. Mikilvægi Norðurslóða fer vaxandi og bæði Kína og Rússland verða sífellt fyrirferðameiri á þessu svæði. Með því að auka eftirlit á Norður-Atlantshafi gætum við aðstoðað NATO á svæði sem verður sífellt mikilvægara en um leið gætt okkar landhelgi enn betur sem er lykilatriði fyrir okkur. Það tók Ísland um 74 ár, frá 1901 til 1975, að færa landhelgina úr þremur mílum í 200 mílur. Styrking landhelgisgæslunnar þyrfti að fara fram í samráði við NATO og þá um leið hvernig NATO getur áfram tryggt öryggi landsins. Öfugri landhelgisgæslu ætti líka að mínu mati fylgja aukin notkun á hafnaraðstöðu á Suðurnesjum og aðstöðu á Keflavíkurflugvelli þar sem bandaríska varnarliðið var. Auk þess að efla landhelgisgæsluna þurfum við að vera með vel búna sérsveit til þess að bregðast við hugsanlegum hryðjuverkaárásum,“ sagði Hilmar að lokum.