Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stabat Mater í Keflavíkurkirkju
Miðvikudagur 27. mars 2024 kl. 10:16

Stabat Mater í Keflavíkurkirkju

Tónlist Arvo Pärt sem er samin við hina þekktu Maríubæn verður flutt á tónleikum í Keflavíkurkirkju fimmtudaginn 28. mars, skírdag. Þá verða einnig leikin verk eftir tónskáldin Hildigunni Rúnarsdóttur, Elínu Gunnlaugsdóttur, Tryggva M. Baldvinsson og fleiri.

Stabat Mater eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt (1935) er miðpunktur tónleikanna en það var samið árið 1985, að beiðni Alban Berg Foundation. Upphaflega skrifaði Pärt verkið fyrir þrjá einsöngvara og strengjatríó en síðar útsetti hann það einnig fyrir kór og hljómsveit. Tónlistin er samin við hina frægu Maríubæn sem er sennilega eftir miðaldamunkinn Jacopo da Todi (1230–1306) sem fjölmörg önnur tónskáld, til dæmis Vivaldi, Rossini, Haydn, Pergolesi og Dvořák, hafa einnig tónsett. Textinn lýsir sorgum Maríu guðsmóður er hún stendur við kross Jesú Krists og fylgist með þjáningum hans og dauða. Ljóðmælandinn biður um að fá að deila með henni byrðum þjáningarinnar og fá að lokum að dvelja í Paradís.

Tónverk Arvo Pärts hafa farið sigurför um heiminn á undanförnum áratugum og hefur hann verið mest flutta núlifandi tónskáld heims um árabil. Á tónleikunum er stutta kammerverkið Es sang vor langen Jahren eftir Pärt einnig flutt en það er fyrir rödd, fiðlu og víólu. Ljóðið er eftir þýsk-rómantíska skáldið Clemens Brentano (1778–1842) og fjallar um sársaukafulla þrá eftir horfnum ástvini. Önnur verk á efnisskránni eru sálmar og söngljóð eftir íslensk tónskáld sem hvert um sig kallast á einhvern hátt við þema Stabat mater og trúna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Flytjendur eru Jóna G. Kolbrúnardóttir (sópran), Guja Sandholt (messósópran), Þorsteinn Freyr Sigurðsson (tenór), Unnsteinn Árnason (bassi), Hlíf Sigurjónsdóttir (fiðla), Martin Frewer (lágfiðla) og Þórdís Gerður Jónsdóttir (selló). Stjórnandi er Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir.

Miðasala fer fram á tix.

Ókeypis aðgangur fyrir börn sextán ára og yngri.