Mannlíf

Spilum þegar við viljum hvíla okkur á símanum
Sunnudagur 28. október 2018 kl. 00:00

Spilum þegar við viljum hvíla okkur á símanum

Það voru margir nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja að glugga í símana sína þegar blaðamaður rak þar inn nefið í leit að nemendum til að spjalla við um lífið og tilveruna. Þó stakk eitt borðið sig út úr en þar sátu þrír strákar og voru að spila á gamaldags spil. Þetta voru þeir Hermann Harðarson, 20 ára Njarðvíkingur, nemandi við fjölgreinabraut á raunvísindalínu, Aron Smári Ólafsson, 17 ára Keflvíkingur, nemandi á afrekslínu fjölgreinabrautar og Rafn Edgar Sigmarsson, 19 ára grjótharður Njarðvíkingur, nemandi á viðskipta- og hagfræðilínu á fjölgreinabraut.


Afhverju eruð þið að spila?
„Þetta er ákveðin hefð í skólanum, það er vinsælt að spila hérna,“ svarar Hermann og Rafn Edgar bætir við: „Bara skemmtilegt að spila, þá er maður ekki í símanum á meðan, hvílir sig á honum. Við fílum mannleg samskipti.“
„Já algjörlega, skemmtilegt bara að spila á spil,“ segir Aron Smári.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hvernig er að vera nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja?
„Félagslífið er geggjað,“ segir Aron Smári og Rafn Edgar tekur undir það: „Já félagslífið heldur uppi stemningunni hérna. Það eru skemmtikvöld þar sem við hittumst öll. Gaman að hitta alla og líka gaman að vera með krökkunum þar sem samskipti eru ekki á netinu,“ segir hann.
„Já, hérna þekkir maður alla eða veit hverjir eru, bara góð tilfinning að vera í FS,“ segir Hermann.
„Mér líður vel hérna en maður þarf sjálfur að hafa metnað í þetta nám, það er svoldið svoleiðis,“ segir Rafn Edgar.

Hvað er vinsælasta spilið?
Aron Smári er fyrstur til að svara: „Forseti er vinsælasta spilið hjá flestum úr Reykjanesbæ. Grindavíkurborðið er líka mikið að spila.“ Strákarnir segja blaðamanni að borðin skiptist dálítið eftir bæjarfélögum en þó séu í raun allir velkomnir að setjast við borðin. Samt var einu sinni mikill rígur á milli bæjanna sögðu þeir en í dag er þetta afslappaðra og þeir hafa kynnst krökkum af öllum Suðurnesjum en ekki bara úr Reykjanesbæ í FS.

Hvað fannst ykkur um myndina Lof mér að falla?
Aron Smári var sá eini sem var búinn að sjá myndina af þeim þremur og segist ekki hafa áttað sig á því hversu slæmt þetta ástand væri hér á Íslandi. „Átakanleg mynd og sýnir raunveruleika sumra. Við áttum okkur ekki á því hversu slæmt þetta er hjá sumum fíklum.“

Hvernig verður Ísland í framtíðinni?
„Meiri atvinna og öllum líður vel,“ segir Hermann. Rafn Edgar er bjartsýnn á framtíðina: „Alltaf betra og betra að búa hérna, allt gengur betur, hvort sem er á íþróttasviðinu eða öðru. Við eigum eftir að finna lausnir á langflestu.“
„Stór spurning. Við verðum lítil og glöð þjóð,“ segir Aron Smári og látum það verða lokaorðin.