Spilakvöld Virkjunar eftir viku
Þann 8. Nóvember verður haldið spilakvöld Virkjunar og mun allur ágóði kvöldsins renna til styrktar hópastarfi Virkjunar. Spiluð verður félagsvist. Stórglæsilegir og fjölbreyttir vinningar í boði. Spilaspjaldið kostar 500 kr. og allir eru velkomnir. Spilakvöldið sem hefst kl. 20:00 verður haldið í húsnæði Virkjunar, Flugvallarbraut 740. Spilað verður til kl. 22:00. Virkjun vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra fyrirtækja sem styrkja Virkjun með vinningum fyrir spilakvöldið.
Um hópastarf Virkjunar
Hjá Virkjun mannauðs á Reykjanesi er manngildi og mannrækt haft að leiðarljósi. Hópastarfið þar byggir á þremur megin gildum sem efla þessa þætti hjá öllum þeim sem nýta sér hópastarfið sem boðið er uppá í virkni- og tómstundamiðstöðinni: virkni, innra virði og lífsleikni. Hópastarfið byggir jafnframt á hugmyndum um sjálfbærni og endurnýtingu efnis. Það er hægt með stuðningi fyrirtækja á svæðinu. T.d. styrkir BYKO í Reykjanesbæ smíðaföndur Virkjunar af miklum myndarskap.
Með virkni er átt við athafnasemi einstaklinga í daglegu lífi. Fólk með fulla starfsgetu sem lendir lendir í því áfalli að missa atvinnuna til lengri eða skemmri tíma, hljóta örorku eða áföllum vegna annarra ástæðna, á í hættu að einangrast félagslega og verða af þeim sökum óvirkir einstaklingar í samfélaginu um lengri eða skemmri tíma. Þetta er glataður mannaður sem þarf að virkja til athafna með jákvæðum hætti.
Hugmyndin um eflingu innra virðis felst í því að að fólk sé ávallt hvatt til að vera ekki aðeins þiggjendur í samfélaginu við aðstæður eins og atvinnuleysi. Frekar að það sem maður þiggur eins og starfsemin sem Virkjun býður uppá sé að hluta til vinnuframlag frá einstaklingnum sjálfum. Að hann sé virkur í að taka þátt í að skapa virði hluta fyrir sjálfan sig og jafnvel aðra um leið. Þetta má gera í formi hvatningar og fræðslu sem leiðir til viðhorfsbreytingar. Þátttaka í lífinu felst í því að nýta það sem að okkur er rétt en jafnframt í því að deila með öðrum, gefa af sér til baka.
Einstaklingar eru misvel í stakk búnir hvað varðar færni í lífsleikni. Alþjóðleg skilgreining á lífsleikni er hæfni til að laga sig að mismunandi aðstæðum og breyta á jákvæðan hátt. Sú geta gerir okkur kleift að takast á við kröfur og áskoranir daglegs lífs (Live Skills Education in Shcools, WHO 1997).Þeir sem ekki hafa sterkan bakgrunn verða frekar fyrir varanlegum skaða af völdum áfalla. Kunnáttan til að takast á við breyttar aðstæður er ekki alltaf til staðar. Með því að hvetja fólk til virkni vill Virkjun stuðla að því að efla innra virði samhliða jákvæðri hvatningu og vönduðum samskiptum. Þannig eflist sjálfstraust og sjálfsmynd sem birtist í aukinni lífsleikni einstaklinga. Hjá Virkjun eru allir velkomnir. Nánar upplýsingar um Virkjun má finna á: www.virkjun.net