Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Spéspegill Suðurnesja sem enginn ætti að missa af
    „Leikfélagið hefur verið á siglingu undanfarin ár og þar eru einstaklega hæfileikaríkir einstaklingar innanborðs."
  • Spéspegill Suðurnesja sem enginn ætti að missa af
    Hópurinn eftir frumsýningu.
Föstudagur 15. mars 2019 kl. 05:00

Spéspegill Suðurnesja sem enginn ætti að missa af

Leikfélag Keflavíkur frumsýndi um síðustu helgi níundu revíu sína Allir á trúnó en tilefnið var að 30 ár eru liðin frá því að fyrsta revían Við kynntumst fyrst í Keflavík eftir Ómar Jóhannsson var sett upp í Félagsbíói.
Þetta er því form sem leikfélagið þekkir vel og hefur sjaldan klikkað – og af hlátrasköllum í Frumleikhúsinu að dæma þá steinlá þetta.

Eins og oft er með revíur þá er verið að taka á málefnum líðandi stundar og gert grín að náunganum. Það er því jafnvægislist að halda sig réttum megin við strikið, þótt auðvitað sé skotið fast á köflum og eins og höfundar segja sjálfir þá verða sumir sárir af því að gert er grín að þeim og svo eru aðrir sem verða enn sárari vegna þess að ekki er gert grín að þeim. Þá getur það sem var fyndið fyrir 30 árum síðan verið móðgandi fyrir heilu þjóðfélagshópana í dag og veit ég til að mynda ekki hvað Pólverjum mun finnast um sjálfa sig í sýningunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Björk Jakobsdóttir var fengin til að leikstýra revíunni sem unnin var í samráði við höfundateymi og leikara. Það vakti athygli mína að höfundateymið er einungis skipað karlmönnum sem mér finnst miður, jafnvel þótt þeir hafi sjálfir tekið eftir því.

Leikfélagið hefur verið á siglingu undanfarin ár og þar eru einstaklega hæfileikaríkir einstaklingar innanborðs sem fá að njóta sín í þessari sýningu. Þá var skemmtilegt að sjá reynsluboltann Guðnýju Kristjánsdóttur aftur á sviði eftir margra ára starf á bak við tjöldin og hafði hún greinilega engu gleymt.

Sýningin er hröð og dettur aldrei niður, það er helst að sumir hafi misst af atriðum vegna hláturs en þá verða þeir einfaldlega að mæta aftur. Sviðsmyndin hentaði einstaklega vel og er það orðið vandræðalegt þegar ég hrósa enn og aftur leikmyndahönnuðinum Davíð Óskarssyni en það er bara þannig. Hljóð og ljós var í færum höndum Þórhalls Arnars Vilbergssonar og tónlistarstjóri var Júlíus Guðmundsson.

Það er okkur nauðsynlegt að líta í spéspegilinn endrum og eins og það var af nógu að taka. Má þar nefna hvítvínsmarineraðar konur á listsýningum sem þær skildu ekki alveg, þingmenn suðursins fengu að kenna á því sem og kakóhugleiðslujógagúrúinn, organistinn, píratar og íbúar sem vilja flokka rusl.

Þetta er ósköp einfalt, frábær skemmtun sem enginn ætti að missa af.

Dagný Maggýjar

 

Meðfylgjandi myndir tók Sólborg Guðbrandsdóttir á frumsýningunni.