Spennandi réttir um áramót
Pólskur jólamatur er gómsætur
Pólskur jólamatur er forvitnilegur fyrir okkur sem erum vön íslenskum hátíðarmat. Við fengum Jakub Grojs, matreiðslunema hjá SOHO, til að deila með okkur uppskriftum frá heimalandi hans, sem gaman væri að prófa um hátíðarnar. Verði ykkur að góðu!
Fylltir hálfmánar
500 gr súrkál
50 gr þurrkaðir sveppir
1 laukur meðalstór
salt og pipar eftir smekk
1 msk. olía
Deigið:
500 gr hveiti
1 eggjarauða
heitt soðið vatn
Aðferð:
Hreinsið sveppina og setjið í pott og hellið yfir köldu vatni. Látið standa í nokkrar klst. (þrjár til sex klst.) Sjóðið sveppina í sama vatni og þeir lágu í, setjið lok á pottinn svo sveppirnir mýkist. Síið soðna vatnið frá og geymið soðið þar til á eftir. Skerið soðnu sveppina í litla bita. Látið vatn síast einnig frá súrkálinu, sérstaklega ef það er of súrt og skerið í litla bita. Setjið í pott og hellið vatni yfir og sjóðið þar til mjúkt í 45 mínútur til eina klukkustund. Eftir suðu sía vökvann vel frá. Saxið laukinn í smáa bita og steikið í olíunni. Bætið sveppunum saman við og steikið létt saman. Eftir litla stund bætið súrkálinu saman við. Kryddið með salti og pipar. Steikið allt saman í tvær til fjórar mínútur. Leyfið þessu öllu að kólna. Fyllingin er bragðmikil.
Undirbúið deigið á meðan innihaldið kólnar.
Setjið hveiti í skál, bætið eggjarauðu saman við og hrærið. Hellið heitu vatni rólega saman við frá katlinum, ekki sjóðandi vatn þó. Blandið vel saman við vatnið. Deigið á ekki að vera klístrað. Búið til litlar deigkúlur. Fletjið út eina í einu á hveitistráðu borði en geymið á meðan hitt deigið í skál og setjið viskustykki yfir svo deigið þorni ekki. Búið til litla hringlaga deighringi og setjið fyllingu í miðjuna með teskeið. Notið lítið kökukefli til að fletja hvern deigbolta í litla köku á hveitistráðu borði.
Brjótið saman deigið í hálfmána og þrýstið kantana vel saman strax. Þegar hver hálfmáni er klár þá raðið þeim upp, stráið hveiti yfir og leggið viskustykki ofan á svo hálfmánarnir þorni ekki.
Hitið stóra pönnu með nokkrum matskeiðum af olíu. Raðið hálfmánum varlega í pönnuna og hellið 50 ml af vatni yfir. Setið lok yfir pönnuna og steikið á miðlungshita í um tíu mínútur.
Fylltar pönnukökur
uppskrift að 8–10 stk.
Fylling með sveppum og hvítkáli
300 gr súrkál
300 gr sveppir
350 ml kjötsoð
1–2 hvítlauksrif
steinselja
2–3 tsk. Allspice (krydd)
2 stk. lárviðarlauf
olífuolía
salt og pipar
Pönnukökur
250 ml hveiti
1 bolli mjólk
1 bolli vatn
2 egg
2 msk. olía
salt
Brauðmylsna:
egg
brauðrasp
Aðferð:
Fylling
Skera lauk og hvítlauk í smáa bita. Skera sveppina til hálfs. Setjið lauk, hvítlauk og sveppi á pönnu og steikið. Skerið súrkál í smátt. Steikið á pönnunni í fimm mínútur og bætið við kjötsoði, súrkáli, kryddi, steinselju, salti og pipar. Steikið með lokinu á við lægri hita í 35–40 mínútur.
Pönnukökur
Blandið saman hveiti, vatni, mjólk og eggjum. Meðalhiti á pönnunni. Minna en meira af olíu.
Pönnukökur með fyllingu
Setjið 1½ til 2 matskeiðar af fyllingu ofan á hverja pönnuköku. Rúllið pönnukökunni saman og dýfið ofan í eggjahræru með brauðmylsnu. Steikið í olíu þar til gullið á litinn.