Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sparkaup fagnar 50 ára afmæli
Föstudagur 15. desember 2006 kl. 13:42

Sparkaup fagnar 50 ára afmæli

Verslunin Samkaup Strax, sem er sennilega betur þekkt sem Sparkaup á Hringbraut, fagnar í dag 50 ára afmæli sínu með skemmtidagskrá og góðum tilboðum á milli kl. 15 og 18.

Það var 1956 sem Kaupfélag Suðurnesja opnaði fyrstu sjálfsafgreiðsluverslunina á Suðurnesjum, Kjörbúðina, að sænskri fyrirmynd og þótti slíkt tíðindum sæta, enda var einungis ein önnur slík verslun á landinu. Á þessum tíma tíðkaðist að kaupmaðurinn stæði fyrir aftan búðarborðið og sækti vörurnar sjálfur og þótti mörgum þessi nýstárlega aðferð vafasöm. „Það voru nú sumir sem óttuðust að viðskiptavinirnir finndu ekkert og þess háttar vangaveltur. En þetta gekk annars mjög vel,“ segir Guðjón Stefánsson, kaupfélagsstjóri og fyrrum framkvæmdastjóri Samkaupa.

Guðjón byrjaði einmitt feril sinn hjá Kaupfélaginu í Kjörbúðinni ári eftir að búðin opnaði, þá 13 ára, og var þar í tvö sumur. Hans fyrstu skyldustörf voru að vigta sykur, hveiti, skyr og þess háttar fyrir kúnnana, en eftir það fór hann að vinna í verslun kaupfélagsins að Hafnargötu 30 sem seldi matvöru, búsáhöld, föt og margt fleira.
Ekkert var til sparað þegar Kjörbúðin var sett á laggirnar og var byggt nýtt hús undir verslunina sem var 100 fermetrar til að byrja með en var síðar stækkuð um 3-400 fermetra. „Hún væri frekar lítil í samanburði við verslanirnar í dag en var stór á mælikvarða þess tíma og þótti framúrstefnuleg,“ sagði Guðjón.

Verslunin hefur þróast nokkuð gegnum árin. Árið 1976 var búðin stækkuð og nafni hennar breytt í Sparkaup og um leið var henni breytt í lágvöruverslun. Í umfjöllun um tímamótin í blaðinu Faxa sagði Gunnar Sveinsson, þáverandi kaupfélagsstjóri, að vörusala frá byrjun hafi verið mjög góð og að rekstur vörumarkaðarins ætti að standa undir sér þótt álagningu hafi verið stillt mjög í hóf.

Á þessum árum óx verslunarrekstri Kaupfélagins fiskur um hrygg og opnuðu verslanir á þess vegum í öllum þéttbýliskjörnum á Suðurnesjum, ein af annari. Árið 1982 opnaði svo stórverslunin Samkaup í Njarðvík.

Þegar kom fram á seinni hluta níunda áratugarins versnuðu aðstæður til verslunarreksturs svo farið var út í gagngera endurskipulagningu reksturs Kaupfélagsins. Endurreisnin hófst svo árið 1992 og og ári seinna voru fest kaup á stórri verslun í Hafnarfirði. Má segja að þar hafi útrás hafist sem enn sér ekki fyrir endann á. Árið 1998 var allur verslunarrekstur félagsins svo settur undir dótturfyrirtækið Samkaup.

Á síðasta ári var skerpt á ímynd verslananna og þeim skipt niður í Samkaup Úrval, Nettó, Kaskó og Samkaup Strax eftir vöruúrvali og verðstigi.

Sparkaup hefur haldið velli í öll þessi ár og er nú, eins og fyrr sagði, rekin undir merkinu Samkaup Strax auk þess sem útliti búðarinnar var breytt. Guðjón segir breytingarnar hafa mælst vel fyrir hjá viðskiptavinum og framtíðin sé björt í Sparkaupum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024