„Spánverjar meistarar í að njóta lífsins“
– og líðandi stundar. – Elín Ragna elskar lífið í Madrid
Síðustu níu árin hefur Njarðvíkingurinn Elín Ragna Ólafsdóttir haldið til í Madríd höfuðborg Spánar. Þar hefur hún sinnt spennandi starfi við þá Ólympíuleika sem haldnir eru hverju sinni í heiminum. Ella, eins og hún er jafnan kölluð, unir vel við lífið á Spáni en hún hélt ævintýralegt brúðkaup á Íslandi í fyrra með alþjóðlegum blæ. Blaðamaður Víkurfrétta heyrði hljóðið í Ellu þar sem hún var nýlega komin heim frá vetrarólympíuleikunum í Sochi í Rússlandi þar sem hún var við störf.
Ella fluttist til Spánar árið 2005 og hóf nám í innanhússhönnun í Institutuo Europeo di Design skólanum. Hún lauk námi árið 2008 en kynntist svo núverandi eiginmanni sínum. Örlögin sáu því til þess að hún ílengdist á Spáni. Eftir að námi lauk var Ella þegar farin að starfa í Madríd en fljótlega var henni boðin staða sem aðstoðarmanneskja forstjóra verkfræðideildar hjá Olympic Broadcasting services, undirfyrirtæki Alþjóða ólympíunefndarinnar. Fyrirtækið sér um að sjónvarpa öllum Ólympíuleikum, vetrar- og sumarleikum. Fyrirtækið er staðsett í Madríd en starfsmenn eru búsettir í nokkra mánuði í því landi sem leikarnir eru haldnir hverju sinni. Ella var til dæmis fjóra mánuði í London þegar sumarólympíuleikarnir voru haldnir þar árið 2012. Hún er svo rétt nýkomin frá Sochi í Rússlandi þar sem hún hefur dvalið síðustu tvo mánuði á meðan vetrarólympíuleikarnir fóru fram. Ásamt því að starfa að Ólympíuleikunum hefur Ella verið að taka að sér hönnunarverkefni víðsvegar, m.a. fyrir Latabæ þegar sett var á laggirnar sýning á Spáni.
„Drifum okkur út á vit ævintýranna“
Ella hafði áður búið um stund í Venezuela og hafði því góð tök á spænskunni. Áður en hún flutti til Spánar var hún við nám í tækniteiknun í Iðnskólanum og starfaði á ferðaskrifstofunni Terranova. „Ég og sonur minn sem þá var fjögurra ára drifum okkur út á vit ævintýranna, ég hugsaði á þeim tíma að ég gæti alltaf komið til baka ef ég sæi að þetta myndi ekki ganga upp. Hins vegar gekk allt eins og í sögu, bæði með góðum stuðningi fólks míns hér heima og svo vinahópi sem ég kynntist í Madríd. Aron Tristan, sonur minn, er mjög aðlögunarfær, hann var farinn að tala spænsku á einum mánuði þannig að það var lykillinn að velgengni okkar.“
Ella býr nú í miðborg Madrídar ásamt fjölskyldu sinni, eiginmanni og tveimur börnum. Í maí er svo von á fjölgun í fjölskyldunni en þá er væntanleg lítil stúlka. „Það er frábært að búa í Madríd með börn, Spánverjar yfir höfuð eru mjög barnvænir og þó svo að Madríd sé stórborg þá er mikið af fallegum görðum til að vera með börnin, og ekki skemmir veðrið fyrir. Einnig er gaman að því að börn eru alltaf velkomin alls staðar, jafnvel á veitingastöðum og kaffihúsum að kvöldi til, aðrar stórborgir í Evrópu eru ekki eins fjölskylduvænar,“ segir Ella sem kann afar vel við Spánverjana. „Ég kann mjög vel við Spánverjana og eru þeir einhvern veginn alltaf glaðir, enda meistarar í að njóta lífsins og líðandi stundar, eitthvað sem kannski margar aðrar þjóðir gleyma í daglegri rútínu. Hér er alltaf tími fyrir að hitta vini á kaffihúsi í tapas og spjalla. Eitt sem við Íslendingar höfum þó fram yfir þá að mínu mati er bjartsýnin og jákvæðnin, Spánverjar eiga það til að detta svolítið í hann Nonna neikvæða.“
Spennandi starf á framandi stöðum
Starf Ellu felst aðallega í uppsetningu og skipulagningu fyrir Ólympíuleikana hverju sinni en fyrirtækið sem hún starfar hjá sér um að sjónvarpa frá leikunum. Ella segir Ólympíuleikana í London árið 2012 hafa verið frábæra í alla staði. Þeir hafi verið vel skipulagðir allt frá opnunarhátíð til enda og Englendingarnir tekið vel á móti gestum sínum. Munurinn á leikunum í London og í Sochi var sá að í Rússlandi þurfti að byggja nánast allt frá grunni, þ.m.t. hótel og veitingastaði, ásamt leikvöngum og svæðum fyrir leikana sjálfa. „Rússar komu mér einstaklega á óvart, ofsalega kurteist og vingjarnlegt fólk. Varðandi Ólympíuleikana, þá er alveg ótrúlegt hvað var byggt fyrir einungis þessar fjórar vikur sem leikarnir standa yfir. Þetta var allt mjög glæsilegt en mig blæðir að hugsa til alls þess fjár sem var eytt og væri svo þarfara á öðrum stöðum.“ Eins og áður segir krefst starfið þess að Ella dvelji löngum stundum fjarri fjölskyldunni á meðan á leikum stendur. „Það getur verið erfitt. Í London komu þau þó með mér og voru hjá mér allan tímann sem var alveg frábært.“ Næst á dagskrá hjá Ellu eru svo sumarleikarnir í Ríó árið 2016.
Ævintýralegt brúðkaup á Íslandi
Ella og Jorge eiginmaður hennar hafa verið saman síðan árið 2008 en í fyrra gengu þau í hjónaband. Brúðkaupið var tekið alla leið en það var haldið með frábæru fólki á Íslandi yfir eina ævintýralega helgi. „Þar sem við búum erlendis var það engin spurning að við vildum bæði halda brúðkaupið á Íslandi,“ segir Ella en brúðkaupið var með mjög alþjóðlegu ívafi. Í heildina voru 150 gestir en u.þ.b. helmingurinn kom erlendis frá. Allt frá Spáni, Bretlandi, Bandaríkjunum, Hollandi, Grikklandi, Tyrklandi, Portúgal, Ítalíu, Ungverjalandi, Kanada og Írlandi. Gera átti Íslandsdvölina sem eftirminnilegasta fyrir erlendu gestina og lá undirbúningurinn að mestu í að skipuleggja skemmtilegar dagsferðir fyrir þau um landið. „Við vorum til dæmis uppi á Langjökli í 12 klukkustunda snjósleðaferð daginn fyrir brúðkaupið,“ segir Ella og hlær. Brúðkaupið var þó fremur hefðbundið að sögn Ellu, athöfn í Fríkirkjunni og tapasveisla að spænskum sið á Iðnó. Þegar líða tók á veisluna kom pylsuvagninn frá Bæjarins Bestu við og gátu gestir fengið sér alíslenska pylsu. „Útlendingarnir tala ennþá um hversu rosalega góðar pylsurnar voru. Ég heyrði að síðustu gestir hafi farið heim klukkan tæplega sjö um morguninn, þannig að ég efast ekki um að fólk hafi skemmt sér vel. Daginn eftir veisluna fórum við með tvær fullar rútur af gestum í Bláa lónið og þar var slakað á. Þetta var án efa skemmtilegasta helgi sem ég hef upplifað. Það er svo gaman að fá tækifæri til að fá alla vini og ættingja þína saman og fagna.“ Ella reynir að koma til Íslands í það minnsta einu sinni á ári og heimsækja fólkið sitt í Njarðvík. „Það er alveg nauðsynlegt og ef ég ætti fleiri frídaga kæmi ég mun oftar,“ segir hún að lokum.
Hjólað með fjölskyldunni í Madríd. F.v: Jorge, Nora, Ella og Aron.
Móðurfjölskylda eiginmanns Ellu stofnaði Hello tímaritið á sínu tíma. Skapast hefur hefð fyrir því að birta myndir af brúðkaupum í fjölskyldunni í tímaritinu síðan. Hér má sjá fallegar myndir af Ellu og eiginmanninum Jorge Mendez Junco.
Ella og börnin í Madrid.