Spáði vitlaust og þarf að hlaupa til Hofsóss
– Sigvaldi Arnar Lárusson kokhraustur á fésbókinni
Sigvaldi Arnar Lárusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, gerðist kokhraustur og spáði því að Gylfi Sigurðsson yrði kjörinn íþróttamaður ársins 2014. „Hafi ég rangt fyrir mér skal ég hlaupa til Hofsóss næsta sumar,“ sagði Sigvaldi á fésbókinni skömmu fyrir kjörið.
Sigvaldi bætti svo um betur og sagði: „Engin trú á karlinum? Ég mun hlaupa frá Keflavík að sjálfsögðu“. Spá Sigvalda var kolröng og framundan er hlaup frá Keflavík til Hofsóss.
„Til að byrja með var ekki mikil meining á bakvið þetta. Ég get aldrei hlaupið þetta en ætla að reyna að koma mér á tveimur jafnfljótum bæði með göngu og hlaupum. Er ekki málið að gera bara eitthvað gott úr þessu fyrst maður getur aldrei haldið kjafti,“ sagði Sigvaldi í samtali við Víkurfréttir.
Hann hefur nú ákveðið að láta verða að ferð á tveimur jafnfljótum á milli Keflavíkur og Hofsóss og er brottför áætluð í júní í sumar. Hann ætlar að nota ferðina til að safna fyrir góðum málstað. „Er ekki málið að byrja á að snapa sér styrkjum?,“ sagði Sigvaldi að endingu.