Soroptimistar roðagylla heiminn
Roðagyllum heiminn (Orange the world) heitir verkefnið sem konur í Soroptimistasambandi Íslands taka þátt í. Þetta er sextán daga átak gegn kynbundnu ofbeldi og hefst 25. nóvember, á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundu ofbeldi, staðfestur í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og nær hámarki sínu þann 10. desember, á alþjóða mannréttindadaginn. Það er jafnframt dagur soroptimista í heiminum.
Víkurfréttir litu inn á fund kvenna í Soroptimistaklúbbi Keflavíkur og forvitnuðust um verkefnið framundan og tilgang klúbbsins. Fyrir svörum voru þær Steinþóra Eir Hjaltadóttir, Svanhildur Eiríksdóttir og Guðrún Antonsdóttir.
Hvað getið þið sagt okkur um starfsemi Soroptimistaklúbbsins?
„Þetta eru samtök kvenna sem hafa verið starfandi í næstum því hundrað ár og á Íslandi í yfir 50 ár, okkar klúbbur er 45 ára. Við erum samtök fyrir konur sem vinna fyrir konur og stúlkur,“ segir Steinþóra Eir.
„Við beitum okkur í málefnum kvenna, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. Klúbbarnir eru innsti kjarninn, svo er Evrópusamband og alheimssamband,“ segir Svanhildur. Hvernig gengur?
„Það gengur bara mjög vel, okkur fjölgaði mjög síðastliðinn vetur, fengum margar konur inn og erum spenntar fyrir næsta verkefni,“ segir Guðrún. „Við erum 43 konur og jafnframt einn af stærstu klúbbum á landinu, sem er frábært,“ segir Svanhildur.
Eru einhver sérstök verkefni sem þið hafið verið að vinna í?
„Já, við höfum verið að styrkja ýmis málefni, eins og til dæmis Björgina og erum mjög stoltar af því. Við styrkjum Velferðarsjóð kirkjunnar á hverju ári og í gegnum tíðina hafa Þroskahjálp og aldraðir notið góðs af vinnu okkar. Nú erum við að stefna að stóru verkefni sem hefst seint í nóvember,“ segir Steinþóra Eir, „og heitir á íslensku því fallega nafni Roðagyllum heiminn. Það er nú ástæðan fyrir því að við erum svona appelsínugular í kvöld en það er liturinn sem einkennir þetta verkefni sem er barátta gegn kynbundnu ofbeldi gagnvart konum og börnum. Átakið hefst á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna, þann 25. nóvember, og varir til 10. desember eða í sextán daga, endar á degi soroptimista. Samtökin hafa tekið þátt í þessum degi í um það bil 30 ár á alheimsvísu þó að við höfum ekki verið að blanda okkur í þetta fyrr en núna og erum mjög spenntar fyrir komandi dögum,“ segir Steinþóra Eir. Hvað getið þið sagt okkur um þetta verkefni?
„Við erum búnar að fá mjög góðar móttökur, nokkur fyrirtæki eru komin í lið með okkur og ætla að lýsa upp húsnæði sitt með appelsínugulum lit, sjúkrahúsið og ISAVIA svo við nefnum sem dæmi. Við erum þakklátar fyrir það,“ segir Guðrún Antonsdóttir.
„Við vinnum samkvæmt fimm verkefnakjörnum; það er valdefling kvenna, ofbeldi gegn konum, heilbrigði kvenna, umhverfismál og menntun. Þetta verkefni núna hefur verið baráttumál í mörg ár í heiminum en kemur nú til okkar af þunga. Það fellur svo vel að því sem við höfum verið að vinna að. Klúbburinn okkar tók það stóra verkefni, ofbeldi gegn konum, upp á sína arma eftir stóran verkefnafund á síðasta starfsári. Við fengum meðal annars fyrirlestur frá Súsönnu Björgu sem vinnur hjá lögregluembættinu, hún var með ýmsar tölfræðilegar upplýsingar varðandi ofbeldi, ekki bara gagnvart konum og börnum heldur einnig gagnvart karlmönnum. Samtök okkar nýtast og gagnast einnig körlum þó við séum að horfa til kvenna. Við trúum því að með því að valdefla konur þá getum við notað það til að sporna gegn ofbeldi,“ segir Svanhildur.
Hvernig munu þið vinna að þessu verkefni?
„Við erum meira að fá upplýsingar og fræðslu til okkar. Við höfum fengið að hlusta á fyrirlestra varðandi þetta eins og ég nefndi áðan, Súsanna Björg kom til okkar, svo kom Díana og sagði okkur frá starfsemi Bjargarinnar og Hilma Hólmfríður, verkefnastjóri fjölmenningar hjá Reykjanesbæ, kom til okkar og fræddi um erlendar konur búsettar hér á svæðinu og hver staða þeirra sé. Það eru oft svona hópar sem eiga erfitt í samfélaginu og við þurfum að hlúa að þeim,“ segir Svanhildur.
„Að vekja athygli á málefninu er áríðandi. Þetta eru viðkvæm mál og við fáum ekki upplýsingar um einstök mál en við þurfum að átta okkur á þessu og fá fræðslu. Það er miklu meira í gangi en við gerum okkur grein fyrir og um það viljum við fræðast. Við getum síðan breitt út boðskapinn og vonandi hjálpað einhverjum. Við þurfum að vita hvað er í gangi í samfélaginu,“ segir Guðrún.
„Upplýsingar eru til alls fyrst. Við þurfum fyrst að vita hvað er í gangi í samfélaginu svo við getum áttað okkur á því hvar við getum aðstoðað og gripið inn í með einhverjum hætti,“ segir Svanhildur.
Eru konur duglegar að hittast í klúbbastarfi?
„Konur eru mjög duglegar að hittast, ef ekki í klúbbastarfi þá í saumaklúbb. Við erum mjög heppnar og ánægðar með þann nýja liðsauka kvenna sem er kominn í klúbbinn okkar,“ segir Guðrún.
„Samtök okkar eru starfsgreinasamtök, konur geta í raun ekki sótt um að koma í samtökin, við þurfum að finna konur og bera þær upp á fundi. Það er ákveðið ferli sem fer í gang. Ef konur hafa áhuga á að vera með okkur þá viljum við endilega vita af því. Við erum með fjölbreytta flóru kvenna úr sem flestum starfsgreinum og þannig búum við til einstaklega gott tengslanet. Við fórum í aðgerðir síðastliðinn vetur til að fjölga konum. Það er svo mikið líf á fundum, allar svo áhugasamar og langar að leggja sitt af mörkum,“ segir Steinþóra Eir.
Hvað gerið þið á fundum?
„Við erum með allskyns upplýsingar sem við kynnum fyrir konum á fundum. Við þurfum að safna í sarpinn. Hvað getum við gert meira? Það er alls konar fræðsla og þær eru svo margar, konur úr öllum stéttum sem hittast hjá okkur, yndislegur félagsskapur fyrir utan alla þá fræðslu sem við fáum. Já, svo borðum við saman góða máltíð,“ segir Svanhildur. „Við fundum einu sinni í mánuði á veturna og sem dæmi þá er einn vinnustaðafundur en þá er einhver systir sem býður okkur á vinnustaðinn sinn og fræðir okkur um starfið sitt,“ segir Steinþóra Eir.
Hvað táknar litur verkefnisins?
„Appelsínuguli liturinn táknar von og bjartsýni, gleði og góða strauma. Við tengjum þetta við sólarupprás, birtu og allt sem þessum góða lit fylgir. Burt með ofbeldi,“ segir Svanhildur.