Sonurinn besta jólagjöfin
Njarðvíkingurinn Silla Ólafsdóttir er mikið jólabarn og hefur yndi af því að skreyta heimili sitt fallega fyrir jólin. Hún á þrjú börn og þrjú ömmubörn sem eru líf hennar og yndi.
Fyrstu jólaminningarnar?
Ég á bara yndislegar minningar um jólin. Við vorum sjö systkinin og alltaf mikið fjör. Mamma saumaði eins kjóla á mig og elstu systur mína, Þórdísi, og spenningurinn var alltaf mikill að sjá hvernig þeir litu út. Á Þorláksmessu voru allir settir í bað, spennur í hárið sem við sváfum með svo að hárið yrði krullað á aðfangadag. Allt var voða hátíðlegt, ilmurinn af eplum og appelsínum var alltaf svo góður. Við hjálpuðum mömmu að baka margar sortir af smákökum. Svo var límt yfir boxin og þau voru sett upp á háaloft en við systur áttum það gjarnan til að læðast þangað upp, opna boxin og fá okkur smá smakk. Það var æðislega gott. Við höfðum alltaf hrygg á aðfangadag og heimatilbúinn ís. Geisli, malt og appelsín var drukkið með. Þegar búið var að setja í uppþvottavélina, sem var sjaldgæft heimilistæki í þá daga, voru pakkarnir opnaðir. Seint á aðfangadagskvöldi fannst mér ætíð best að fá mér smákökur, ískalda mjólk og lesa bók.
Jólahefðir hjá þér?
Alltaf er farið í kirkjugarðinn á aðfangadag og kveikt á kertum hjá ástvinum og ættingjum.
Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
Já, ég fæ líka góða aðstoð frá eiginmanni mínum, Einari. Hann brúnar heimsins bestu kartöflur.
Jólamyndin? Það er engin ein sérstök mynd í uppáhaldi. En margar eru þær fallegar.
Jólatónlistin? Lagið Ó, helga nótt með Heru Björk og Margréti Eir.
Hvar kaupirðu jólagjafirnar? Í Reykjanesbæ.
Gefurðu mikið af jólagjöfum? Já, frekar mikið.
Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Þegar bjöllurnar hringja kl.18 þá faðmast fjölskyldan og svo hefst maturinn.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Ég fékk hana árið 1972 þegar ég fæddi son minn Gísla Níls 21. desember. Fékk að fara heim með hann á jóladag það ár.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Reyktur lambahryggur, brúnaðar kartöflur og alls kyns meðlæti. Og iðulega gómsætur eftirréttur en ekki alltaf sá sami.
Eftirminnilegustu jólin?
Það voru jólin 1995 í Afríku. Þá bjuggum við í Úganda í borg sem heitir Jinja. Þar bjuggum við í fallegu einbýlishúsi og höfðum allt til alls. Við fengum sent jólatré, hangikjöt og Ora grænar baunir frá Íslandi og höfðum haft með okkur jólaskraut í farteskinu þegar við fórum þangað. Við vorum með þjónustufólk sem bjó í litlu húsi við hliðina á okkur og við buðum þeim í mat á jóladag. Við elduðum jólakalkún með góðri fyllingu, kartöflur og alls konar salöt með. Þær fóru í sitt fínasta púss og höfðu aldrei séð svona fallegt jólatré og jólaskraut. Þær fengu allar jólapakka og mat eins og þær vildu. Gleðin skein svo úr hverju andliti að maður var gráti næst að horfa á þær. Þeirra jólatré var bara trjágrein sem þær stungu ofan í fötu, settu smá bómull hér og þar og nokkrar uppblásnar blöðrur. Við gáfum þeim jólaskraut og jóladúk til þess að hafa hjá sér og það var eins og við hefðum gefið þeim gull.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Leyndó. Það besta við jólin eru hefðirnar, kærleikurinn og að allir eru góðir við hvern annan. Þakklæti, friður og ljós til ykkar um jólin.