Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sonur þinn er bara með eitt vinstra eyra!
Laugardagur 10. mars 2012 kl. 14:18

Sonur þinn er bara með eitt vinstra eyra!


Höfum við ekki öll lent í að vera vitur eftir á - eða finnast það sem okkur langar til að segja ekki nógu frambærilegt til að segja það upphátt! Hafa ekki flestir lent í uppákomum þar sem þeir hafa sagt eitthvað eða gert sem hefur annað hvort verið óviðeigandi eða heimskulegt og á þeirri stundu óskar maður einskis heitar en jörðin muni opnast og gleypa mann með húð og hári. Hvort ég lendi oftar í þessu en aðrir ætla ég ekkert að fullyrða um hér en þrátt fyrir að út úr mér hafi komið endemis vitleysa þá hef ég lært með tímanum að þrátt fyrir að ég segi eitthvað heimskulegt þá þýðir það ekki að ég sé heimsk. Það fer aftur á móti alveg eftir því hvernig mér líður þá stundina hvaða tilfinningar ég set í atburðinn. Ef ég er óörugg og líður ekki vel með sjálfa mig þá túlka ég allt á versta veg. Á móti kemur að þegar öryggið er til staðar og mér líður vel þá get ég mun frekar séð spaugilegu hliðarnar á aðstæðum og tek ekki lífið og sjálfa mig eins alvarlega.


Þetta gerðist fyrir rúmum 18 árum síðan. Sonur minn var veikur í eyrunum og fór ég með hann til sérfræðings. Ég fer inn til læknisins og sest á móti honum með son minn í fanginu þegar hann segir ,,við skulum byrja á því að kíkja vinstra megin, snúðu honum“. Ég verð eitthvað óörugg og spyr ,,ertu að tala um vinstra megin út frá þér eða út frá mér“ (duh - hann sat á móti okkur). Læknirinn horfði forviða á mig og hefur örugglega verið að hugsa á sama tíma hvort hann ætti að láta yfirvöld vita í hvaða höndum blessað barnið væri. Ég fór að afsaka mig og útskýra fyrir honum hvernig maður gæti ruglast á vinstra og hægra eyra. Þá segir hann þessa ógleymanlegu setningu ,,bara svo að það sé alveg á hreinu að þá er sonur þinn bara með eitt vinstra eyra“ síðan tók hann upp svona eyrnaskópíu, sneri syni mínum snöggt og kíkti inn í vinstra eyrað. Doktorinn var frekar fámáll þegar hann kvaddi mig og mér leið hræðilega. Sá hann fyrir mér með erindi á norrænni læknaráðstefnu ,,Nu ved de ikke hvad er venstre og højre“. Ég hugsaði um fátt annað það sem eftir lifði dags og dró sjálfa mig niður: þú ert nú meiri vitleysingurinn, HVER segir svona og hvað varstu eiginlega að hugsa. Var ekki lengi að finna líka allt að þessum lækni, þeim fúla manni sem ætti ekki skilið að halda læknaleyfinu. Þegar ég lagðist á koddann þetta kvöld var það ekki bara ég sem var heimsk heldur var læknirinn orðinn ömurlegur í ofanálag, óhæfur í mannlegum samskiptum og stéttinni til skammar.


Ég get hlegið að þessu í dag - því það eru ekki aðstæður og atvik sem skipta öllu máli heldur okkar eigin viðhorf til þeirra. Læknirinn er heldur ekki alsaklaus í þessu máli. Það fyrsta sem maður lærir þegar maður ætlar að starfa við mannleg samskipti er að mæta skjólstæðingnum á þeim stað sem hann er staddur hverju sinni. Hefði hann ekki getað séð húmorinn í þessu og sagt t.d.: skil þig vel, er sjálfur alltaf að lenda í þessu. Hefur þér ekki dottið í hug að merkja eyrun á syni þínum! Við hefðum hlegið í kjölfarið og málið dautt. Nú hvað ef ég er ein af þeim sem ruglast á hægri og vinstri, á ég þá að þurfa að mæta fordómum sem þessum þegjandi og hljóðalaust. Ég velti mér upp úr því hvað lækninum fannst um mistök mín vegna þess að ég var óörugg og í kjölfarið fylgdi hugsunin ,,ég er heimsk“ og mér leið illa. Það má vel vera að honum hafi fundist það (og jafnvel fleirum) en sú hugsun hjálpar mér ekkert og er hvorki uppbyggileg né skapandi. Sá sem gerir engin mistök gerir aldrei neitt. Við höfum öll gott af því að skoða hvers konar hugsanir eiga greiðan aðgang að okkur og við hvaða aðstæður. Eru hugsanir okkar raunsæjar og eiga þær við rök að styðjast, ef ekki þá ættum við að reyna að skipta þeim út fyrir aðrar og jákvæðari. Það er mikilvægt fyrir andlega líðan að leyfa sér að líða vel með sjálfum sér, kostum og göllum. Það hvernig við hugsum um okkur sjálf hefur áhrif á samskipti okkar við aðra og það er svo mikilvægt að við leyfum okkur að koma til dyranna eins og við erum klædd. Þegar við hættum að taka lífinu of alvarlega og beitum ekki dómhörku þegar okkur verður á, sjáum við það broslega við aðstæður eins og þær sem ég lýsi hér að ofan.


Ég mundi bregðast allt öðruvísi við svona aðstæðum í dag. Ég mundi leyfa lækninum að klára skoðunina, þakka honum fyrir í lokin, en áður en ég gengi út frá honum mundi ég horfa einbeitt í augu hans, pota svo frekjulega með fingrinum inn í vinstra eyrað ,,hans“ og segja um leið: það má vel vera að hér sé vinstra eyrað á þér og þínum en þannig er það bara ALLS EKKI þaðan sem ég kem! Ganga svo hnarreist og ákveðin út, ánægð með sjálfa mig.


Þangað til næst - gangi þér vel
Anna Lóa

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024