Söngvakeppni starfsbrauta í framhaldsskólum haldin í fyrsta sinn
Söngvakeppni starfsbrauta framhaldsskóla á Íslandi var í fyrsta sinn haldin í kvöld í hátíðarsal Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sigurvegarar keppninnar voru Jóna Rún Skarphéðinsdóttir og Matthías Örn Erlendsson úr Framhaldsskólanum á Húsavík, en þau fluttu lagið Eldur eftir hljómsveitina Írafár. Alls tóku fulltrúar sjö starfsbrauta í framhaldsskólum þátt í keppninni, en starfsbrautirnar eru fyrir fatlaða nemendur og nemendur með sérþarfir. Það var starfsbraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem átti frumkvæði að keppninni og sagði Kolbrún Marelsdóttir deildarstjóri starfsbrautar skólans að hún væri mjög ánægð með keppnina. „Við hjá starfsbrautinni í Fjölbrautaskóla Suðurnesja vildum sjá söngvakeppni fyrir okkar nemendur sem yrði á þeirra forsendum. Það eru allir rosalega ánægðir með kvöldið sem heppnaðist mjög vel. Við vonum bara að þessi keppni verði að árlegum viðburði og að fleiri starfsbrautir taki þátt á næsta ári.“ Dómnefnd keppninnar skipuðu Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson bæjarfulltrúi, Rúnar Júlíusson tónlistarmaður, Ólafur Arnbjörnsson skólameistari FS og Birna Chin nemandi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sigurvegarar keppninnar fengu farandbikar sem verður næsta ár í Framhaldsskólanum á Húsavík.
VF-ljósmynd/JKK: Sigurvegarar keppninnar voru Jóna Rún Skarphéðinsdóttir og Matthías Örn Erlendsson úr Framhaldsskólanum á Húsavík, en þau fluttu lagið Eldur eftir hljómsveitina Írafár. Rúnar Júlíusson tónlistarmaður afhenti sigurvegurunum verðlaunin.