Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Söngurinn hefur alltaf verið stór hluti af mér“
Fimmtudagur 31. maí 2018 kl. 06:00

„Söngurinn hefur alltaf verið stór hluti af mér“

- Grindvíkingurinn Berta Dröfn hefur sungið frá því hún man eftir sér

Grindvíkingurinn Berta Dröfn Ómarsdóttir hefur verið syngjandi frá því að hún man eftir sér en að eigin sögn er söngur stór hluti af henni. Berta segir að mamma hennar minnist þess oft þegar hún hafi skriðið í pottaskápinn þegar hún var yngri og hafi rifið úr honum allt sem hann gaf frá sér mestu lætin og hafi byrjað að berja saman mismunandi pottlokum og gargað með. En Berta segir að þannig brýni maður raddböndin. Berta útskrifaðist í lok október 2016 með hæstu einkunn eftir tveggja ára mastersnám í söng við Conservatorio Claudio Monteverdi í Bolzano á Ítalíu.

Söngurinn heillaði strax
Söngferillinn hófst í Grindavík þegar Berta söng með barnakór Grindavíkurkirkju en hún og fjölskyldan hennar fluttust til Grindavíkur þegar hún var sex ára gömul. „Fyrstu tónlistarkennararnir mínir voru Siguróli Geirsson organisti og Vilborg Sigurjónsdóttir píanókennari og kórstjóri. Þau stjórnuðu barnakórnum í Grindavík þar sem ég söng alla mína grunnskólagöngu og fékk þar fyrstu tækifæri til að syngja
einsöng. Ég lærði líka á píanó hjá Vilborgu og þegar hún fann að áhuginn á píanóinu var að dvína hjá mér tók hún á það ráð að kenna mér lög sem ég gat sungið með - hún sá að áhuginn var fyrst og fremst á söng.“ Berta hélt áfram að syngja eftir grunnskólann en á sínum unglingsárum söng hún í unglingakór hjá Esther Helgu Guðmundsdóttur ásamt því að vera í einkatímum hjá henni. „Það var skemmtilegur tími, við fórum m.a. til Búdapest þar sem ég söng einsöng með hópnum.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Berta ásamt Bergþóri Pálssyni

Tók þátt í ýmsum söngkeppnum í skólunum
Berta tók þátt í fjölmörgum uppfærslum bæði á vegum grunnskólans í Grindavík og í Fjölbrautaskóla Suðurnesja ásamt því að taka þátt í ýmsum söngkeppnum á vegum skólanna og bar hún meðal annars sigur úr býtum í Samsuð söngvakeppninni þegar hún var í níunda og tíunda bekk. „Með þennan grunn frá Grindavík fór ég í Söngskólann í Reykjavík, sextán ára gömul og hef verið þar meira og minna síðan, fyrst sem nemandi og síðar sem starfsmaður en í dag er ég skrifstofustjóri og kennari við skólann. Söngkennarar mínir við söngskólann í Reykjavík voru Elísabet F. Eiríksdóttir, Ólöf Kolbrún Harðardóttir og Viðar Gunnarsson.“ Berta segist varla muna eftir sér öðruvísi en syngjandi og hefur hún komið fram við hina ýmsu viðburði og enn þann dag í dag sækir hún einkatíma í söng eða svokallaða masterklassa, ásamt því að syngja í kórum og koma víðsvegar fram. „Í dag er ég í Óperukórnum í Reykjavík undir stjórn Garðars Cortes og í sönghóp sem starfar undir nafninu Jólanornirnar. Svo kem ég talsvert fram sem einsöngvari, í athöfnum, einkasamkvæmum, tónleikum og annað, oftast með píanóleikaranum Sigurði Helga Oddsyni.“

Það er nóg að gera hjá Bertu á komandi misserum en þann 27. maí sl. hélt hún einsöngstónleika í Hörpu sem kölluðust Aríur og órar, tónleikarnir voru hluti af tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar í Hörpunni en þar gefst ungu tónlistarfólki kostur á því að koma fram og halda tónleika. Efnisskrá tónleikanna var klassísk, aríur og ljóð eftir mörg virtustu tónskáld óperubókmenntanna.  „Aðsóknin var framar okkar björtustu vonum, það þurfti endalaust að bæta við stólum, en þegar tónleikarnir byrjuðu var enn að bætast við fólk sem raðaði sér upp við gluggana eða aftast. Það var virkilega gaman að syngja í Hörpu og hljómburðurinn í Hörpuhorni er algjör draumur.“

Í Carnegie Hall

Er forfallinn barrokkaðdáandi
Sumarið er þétt setið hjá söngkonunni en hún verður meðal listamanna á MAI sumarfestivali í Trentinu á Ítalíu sem er óperustúdíó fyrir framúrskarandi ungt tónlistarfólk en Berta segir að þegar maður sé í óperubransanum þá þroskist maður seint. „Áheyrnarprufur fóru fram víða um heim og því sérvalin söngvari í hverju hlutverki. Ég fór í áheyrnarprufu í Karlsruhe í Þýskalandi í febrúar, var svo kölluð í næsta „holl” til Berlínar í mars, en þá var lokaútslagið um hvort og hver fengi hvaða hlutverk. Þetta var spennandi en jafnframt stressandi ferli, sem lauk vel og ég fékk hlutverkið sem mig langaði í, hlutverk Morgana í óperunni Alcina eftir Händel. Händel er eitt af mínum uppáhalds tónskáldum, en ég er forfallin barrokkaðdáandi. Barokktímabil listasögunnar hefur átt hug minn í langan tíma: var m.a. viðfangsefni lokaritgerðar minnar í mastersnáminu á Ítalíu.“ Training through performance er yfirskrift festivalsins en Berta fer með hlutverk í óperuuppfærslu ásamt því að sækja söngtíma, masterklassa og fær þjálfun með fyrsta flokks raddþjálfurum.
„Markmið þátttökunnar er að öðlast sviðsreynslu og fá markvissa þjálfun til framtíðar, festivalið er árlegur viðburður í Trentino, sem margir óperuunnendur vita af.“

Berta og Garðar Thor Cortes

Hefur komið víða fram hérlendis og erlendis
Það hefur verið nóg að gera hjá Bertu eftir að hún útskrifaðist en í byrjun árs 2017 hélt hún heimkomu/útskriftartónleika í Salnum í Kópavogi, ásamt Sigurði Helga píanóleikara og Nandllely Aguilar Peña fiðleikara og vinkonu sinni frá Mexikó. „Sumarið 2017 söng ég á Galatónleikum í Carnegie Hall í New York. Tónleikarnir voru partur af sumarfestivali MOS, þar sem ég fór einnig með hlutverk í Töfraflautunni eftir Mozart.“ Í nóvember í fyrra fékk Berta heimsókn frá Ítalíu en þá kom píanóprófessorinn Alessandra Brustia til Íslands og var með masterklass við Listaháskólann og héldu þær stöllur nokkra tónleika saman. Þær komu fram í Reykjavík, á Djúpavogi, Fáskrúðsfirði og í Grindavík, Berta segir að Alessandra sé frábær listakona og að það hafi verið mikill heiður að fá að syngja með henni.

Alltaf fjör í vinnunni                                                                                                                           Eurovision stjarnan í ár Ari Ólafsson er nemandi við skólann og var mikið líf og fjör í kringum för hans til Portúgal og Bergþór Pálsson, æfði sig í skólanum fyrir dansþáttinn „Allir geta dansað“. „Þetta er dásamlegur kokteill af frábærum listamönnum og mikið stuð.“

Berta mun halda  tónleika í Grindavíkurkirkju, í kvöld, fimmtudaginn 31.maí kl. 20 en yfirskrift tónleikanna er „Klassík fyrir sjóara“. Á tónleikunum munu Berta og Sigurður Helgi píanóleikari flytja nokkrar klassískar aríur og ljóð í bland við íslensk sönglög og sjóaraslagara. Berta mun meðal annars flytja aríuna „When I ́m laid in Earth eftir Purcell“ ásamt öðrum aríum sem flestir ættu að þekkja. Söngljóðin á prógramminu eru bæði íslensk og erlend, dramatísk, glettin, létt og daðrandi þar sem sjórinn og sjómannslífið verður lofsungið. Frítt er inn á tónleikana og eru allir velkomnir.