Söngur opnar fyrir gleðina
segir séra Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur í Útskála- og Hvalsnessóknum
Fermingarathafnir í kirkjum landsins eru víðast hvar mjög hefðbundnar með sálmasöng, altarisgöngu og slíku. Séra Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur í Útskála- og Hvalsnessóknum, hefur stundum brugðið út af vananum enda tónelskur mjög og liðtækur bæði á gítar og píanó. Það kemur því ekki á óvart að heyra fermingarbörnin hans hefja stundina í fermingarfræðslunni á því að syngja við undirleik hans. Þau byrjuðu á að syngja Drottinn er minn hirðir. Þá sungu þau víxlsöng þar sem stúlkur sungu á móti drengjum, Drottinn blessi þig, og enduðu á að syngja Hallelúja með meiri innlifun enda raddirnar orðnar heitar og þau ekki eins feimin og í upphafi.
Að vera góður við aðra
„Söngurinn kemur þeim í gang. Fermingarbörnin fara í munnlegt próf þar sem prófað er hvort þau kunni Trúarjátninguna, Faðir vor, Tvöfalda kærleiksboðorðið, Gullnu regluna og Litlu biblíuna. Þá læra þau utanbókar Boðorðin tíu og Blessunina og Signinguna. Allt þetta eiga þau að kunna á fermingardaginn sjálfan. Yfir veturinn er fjallað um þessi atriði og gildi þess að hafa frumkvæði í að vera góður við aðra og miklu fleira. Við dveljum við Gullnu regluna sem kemur fram í Matteusarguðspjalli, sem segir að allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Kannski er ég dálítið gamaldags en mér finnst það hjálpa þeim að einbeita sér að því að læra þetta ef þau vita að það er munnlegt próf framundan. Fermingarundirbúningur miðar að því að fræða unglingana um kristna trú og tengingu trúarinnar inn í daglegt líf. Fjallað er um flest af því sem lífið færir okkur; gleði, sorg, líf, dauða, samskipti kynjanna, samskipti á heimili, mikilvægi heiðarleika, fyrirgefninguna, ævihátíðir og margt fleira. Mörg þessara atriða eru skoðuð með hliðsjón af völdum biblíutextum sem hafa haft mótandi áhrif á menningu okkar Íslendinga í meira en þúsund ár. Unglingarnir fá innsýn í kirkjusöguna á Suðurnesjum sem er bæði löng og merkileg en sem dæmi er vitað um kirkjur bæði að Útskálum og í Hvalsnesi frá því um árið 1200. Öll fermingarbörn Þjóðkirkjunnar fara í ferðalag í Vatnaskóg í nokkra daga og taka þátt í fræðslu þar, leik og útivist. Mikill söngur einkennir fermingarfræðslutímann hjá mér,“ segir séra Sigurður Grétar Sigurðsson.