Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Söngnum fylgir smitandi gleði
    Vísiskórinn.
  • Söngnum fylgir smitandi gleði
    Margrét Pálsdóttir lifir sig inn í kórstjórnina.
Sunnudagur 14. desember 2014 kl. 10:00

Söngnum fylgir smitandi gleði

Félagar í Vísiskórnum í Grindavík læra tungumál hvers annars í gegnum söng.

Vísiskórinn var stofnaður fyrir um mánuði síðan og átti upphaflega að koma saman vegna einnar jólaskemmtunar. Kórinn er hálfgert hugsjónaverkefni málfræðingsins og Grindvíkingsins Margrétar Pálsdóttur sem segir Íslendinga missa af svo miklu með því að læra ekki tungumál erlendra samstarfsmanna. Samsöngur sé góð leið til þess og að finna gleðina og skynja menningu þeirra. 
 
„Við hittumst fyrst fyrir um mánuði vegna þess að sú hugmynd kom upp að það kæmi mögulega saman hópur starfsmanna Vísis til að syngja á jólaskemmtun fyrirtækisins. Þá ákváðum við að kanna áhugann og létum þetta berast. Dálítill hópur skráði sig og mætti á æfingu og ákváðum svo í sameiningu að syngja á tungumáli þeirra kæmu til að syngja,“ segir Margrét Pálsdóttir, kórstjóri Vísiskórsins. Fólk frá mörgum löndum starfar hjá útgerðarfélaginu og fiskvinnslunnar Vísis í Grindavík. Í hópinn skráðu sig Pólverjar og Íslendingar sem eru flestir meðal starfsmannanna. „Ég held að hinir hafi verið feimnir í byrjun en ég held að þeir sjái í dag að hvað Íslendingarnir erum líka duglegir að syngja pólskuna. Þá held ég að þeir komi með. Ég vona það að minnsta kosti.“
 
 
Fjölhæft fólk sem hefur frá mörgu að segja
Stofnun kórsins hefur í raun verið dálítið hugsjónaverkefni hjá Margréti sem vill að Íslendingar læri líka tungumál fólks af öðrum þjóðernum sem kemur hingað til lands. „Já mér finnst hafa einkennt síðustu ár að allir innflytjendur og starfsmenn eigi að læra íslensku. Það er gott og blessað. En við höfum gleymt því að við þurfum líka að læra málið þeirra. Þetta fólk kemur hingað, er fjölhæft og hefur frá mörgu að segja og getur miðlað mörgu til okkar; menningu, þekkingu og skemmtun. Er yndislegt fólk. Við missum af svo miklu með að vita ekki hvað þau hafa að segja,“ segir Margrét og bætir við að sniðugt sé að vera með sönghóp eins og þennan á fjölþjóðlegum vinnustað. „Það kom í raun í ljós eftir að við byrjuðum að við höfðum verið að kynnast þeim Íslendingarnir og læra lögin þeirra og finna gleðina sem þau hafa smitað til okkar.“
 
Opin og fjölþjóðleg söngkvöld
Spurð segist Margrét ekki vita til þess að svona sönghópar séu á öðrum fjölþjóðlegum vinnustöðum, en svo gæti þó vel verið. Hún mælir hiklaust með því að stofna slíkan og segir það afar skemmtilegt. „Ég bjó til Facebook hóp þar sem ég matreiddi textana ofan í þau. Ég hef alltaf tröllatrú á fólki og söngurinn er þannig að ef þú færð tækifæri til að syngja þá ferðu að syngja. Þannig að ég sé fyrir mér að það sé hægt að vera með sérstök opin og fjölþjóðleg söngkvöld. Þetta hefur mjög góð áhrif. Þú sérð það bara með þennan hóp. Þetta átti bara að vera jólasönghópur en þau eru farin að kalla þetta kór svo að þetta er orðið Vísiskórinn,“ segir Margrét kát. 
 
VF/Olga Björt
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024