Söngljúfur fimm barna faðir
– Efnir til nýárstónleika í Njarðvíkurkirkju
Keflvíkingurinn Rúnar Þór Guðmundsson hefur alltaf haft það í sér að syngja og fylgdi draumnum eftir þegar hann lauk burtfararprófi í söng árið 2008 hér á Íslandi. Eftir það fór hann í framhaldsnám til Ítalíu í sex mánuði og var í einkatímum hjá hinum þekkta Kristjáni Jóhannssyni við Gardavatn.
Rúnar Þór og Alexandra Chemishova sópran bjóða til nýárstónleika í Njarðvíkurkirkju 1. janúar klukkan 20:00. Þau verða með einvala lið með sér en þar má fyrstan nefna Hiroshi sem er japanskur fiðluleikari, Helga Hannesson undirleikara og stúlknakór Stóru-Vogaskóla. Efnisvalið er aðgengilegt og eitthvað sem allir þekkja. Við hittum Rúnar Þór og spurðum hann spjörunum úr.
Bjuggu erlendis í nokkur ár
„Við hjónin fluttum hingað heim með fjölskylduna okkar frá Danmörku sumarið 2017. Við vorum þá tilbúin að koma heim aftur eftir ævintýri í útlöndum með alla fjölskylduna en við fórum fyrst til Noregs árið 2010 og bjuggum þar í fjögur ár. Þar var ég að smíða og frúin að skrifa bækur ásamt því að hugsa um heimilið en hún hefur gefið út tvær barnabækur sem urðu til hjá henni erlendis. Veit ekki hvort hún fái næði til að skrifa meira hér heima, það er allt annað tempó í þessum löndum en hérna. Þó að okkur hafi liðið mjög vel úti þá fannst okkur tími til kominn að snúa heim með krakkana sem eru á aldrinum sjö til 25 ára, fjórir strákar og stelpan yngst. Maður finnur það að það vantar alltaf stórfjölskylduna og vini þegar maður býr erlendis.“
Byggingarfræðinám í Danmörku
„Þegar við vorum búin að vera í Noregi þessi fjögur ár þá langaði mig að læra meira en ég er trésmiður í grunninn og við fluttum til Horsens í Danmörku. Ég er að útskrifast sem byggingarfræðingur úr tækniskóla þaðan núna um áramót. Ég vildi taka verknámið hér heima og það var ekkert mál svo ég réði mig á Verkfræðistofu Suðurnesja og starfa þar í dag. Ég hef gaman af því starfi en vil einnig syngja og gríp hvert tækifæri sem ég fæ til þess við jarðarfarir, brúðkaup og tónleika sem ég og fleiri stöndum fyrir eins og nú um áramót. Um síðustu helgi var ég beðinn að syngja á aðventutónleikum í Kópavogi en þar söng ég við undirleik eins færasta organista landsins hennar Láru Bryndísar Eggertsdóttur en henni kynntist ég í Danmörku. Þar í landi komum við stundum fram saman. Hún hafði orð á því þegar ég var fluttur heim að Danirnir vildu heyra meira í mér því þeir voru svo hrifnir af söngnum mínum og það þótti mér mjög vænt um.“
Trésmiðurinn syngjandi í Noregi
„Okkur líkaði einnig mjög vel í Noregi og þar tók ég þátt í mörgum viðburðum með fagfólki innan söngs og tónlistar ásamt því að vinna við smíðar. Mjög gaman að taka þátt þar með góðu fólki. Við bjuggum á milli Stavanger og Bergen en í þeim stóru borgum er mikil tónlistarmenning. Meðan ég bjó í Skandinavíu var ég að syngja töluvert mikið við allskonar uppákomur og fór meðal annars alveg niður til Frakklands, til Ruen, Normandy og Parísar, til að syngja og er sennilega eini Keflvíkingurinn sem hefur sungið einsöng í kirkjunni Cathédrale Notre Dame de Rouen. Hér heima er ég farin að gefa mér tíma aftur til að syngja opinberlega og við Alexandra ætlum að bjóða gestum okkar upp á perlur úr óperuheiminum þann 1. janúar í Njarðvíkurkirkju og einnig dægurlög, söngleikjalög og fleira sem er aðgengilegt og skemmtilegt fyrir hlustendur okkar. Hún hafði samband við mig en þessir nýárstónleikar eru hugmyndin hennar. Gaman að byrja nýtt ár með fallegri tónlist og ljúfri stund í kirkjunni. Sannkölluð fjölskyldustund en það er frítt inn fyrir börn.“
Rúnar Þór og Alexandra Chemishova sópran bjóða til nýárstónleika í Njarðvíkurkirkju 1. janúar klukkan 20:00.