Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 21. október 1999 kl. 23:49

SÖNGLEIKURINN UM ÓLIVER TWIST Í KEFLAVÍK

Söngleikurinn Óliver verður frumsýndur í Frumleikhúsinu í Keflavík þann 30.október nk. Verkið er byggt á sögu enska rithöfundarins, Charles Dickens, um ógæfupiltinn Óliver Twist. Tinna Kristjánsdóttir, 15 ára gömul Keflavíkurmær, leikur aðalhlutverkið, en hún hefur m.a. fórnað hárinu fyrir hlutverkið. Einar Örn Einarsson, organisti í Keflavíkurkirkju, er tónlistarstjóri og spilar undir á píanó í sýningunni. Leikstjóri í tuttugu ár Þröstur Guðbjartsson, leikstjóri, hefur leikstýrt fjölda leikhópa víða um landið undanfarin tuttugu ár. Hann býr í Reykjavík og keyrir daglega til Keflavíkur. Hann segir að honum finnist það gott fyrirkomulag því hann verði stundum svolítið þreyttur á að búa í ferðatösku einhversstaðar á Austfjörðum. Þröstur hefur einnig leikstýrt sýningum í Borgarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu og hjá Leikfélagi Akureyrar. Fyrir fjórum árum síðan setti hann upp Stræti, hjá Leikfélagi Keflavíkur. Æfingar ganga vel Áhugafólk af Suðurnesjum á öllum aldri tekur þátt í sýningunni, í leikhópnum má m.a. finna mæðgur og systur. Yngra fólkið hefur flest tekið þátt áður í uppfærslu hjá leikfélaginu áður en eldra fólkið er kjarninn sem hefur verið mjög virkt í leikhúslífinu undanfarin ár. Fólk leggur hart að sér við æfingar, sem hefjast dag hvern klukkan 17 og lýkur rétt fyrir miðnætti. Allir sem vinna við sýninguna hafa greinilega mjög gaman af því sem þeir eru að gera, og telja ekki eftir sér stundirnar sem fara í æfingar. „Æfingar hafa gengið mjög vel og allir eru búnir að læra lögin sín. Flestir leikararnir fara með tvö til þrjú hlutverk, svo að þetta er töluvert mikið að læra”, sagði Þröstur. Miðasala hafin „Bæjarbúar eru þegar farnir að panta miða og við ætlum að sýna þetta eins lengi og fólk kemur á sýninguna”, sagði Þröstur. En hvernig sýning verður þetta? „Ég læt sviðsmyndina vera svolítið hráa og stærstu senurnar verða inní þjófabælinu hjá Feyki. Ég reyni líka að draga fram kómíkina, en margir karakterar í sýningunni eru mjög fyndnir”, sagði Þröstur Ung aðalleikkona Tinna Kristjánsdóttir, 15 ára nemandi í Heiðarskóla, leikur Óliver. Þó hún sé ung að árum þá er hún enginn byrjandi í leiklistinni. Hún hefur tekið þátt í tveimur uppfærslum, Bestu sjoppunni í bænum og Litlu stúlkunni með eldspýturnar. Hún var með sítt hár en rakaði það allt af til að líkjast Óliver meira. Sérðu ekki eftir hárinu? Nei, það vex aftur svo er líka þægilegt að vera með svona lítið hár, þá þarf ég ekki að greiða mér áður en ég fer í skólann”, sagði Tinna og strýkur sér um kollinn . Tinnu finnst alveg rosalega gaman að leika en er samt ekki viss um hvort hún ætli að verða leikkona. Hún segir að nú gangi skólinn alveg fyrir, en stundum sé erfitt að komast yfir heimalærdóminn áður en hún á að vera mætt á æfingar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024