Atnorth
Atnorth

Mannlíf

Miðvikudagur 23. janúar 2002 kl. 20:58

Söngleikurinn um Gretti æfður í Keflavík

Miklir hlutir eru að gerast í Frumleikhúsinu þessa dagana því þar er hafið samstarf Leikfélags Keflavíkur og Vox Arena, leiklistarklúbbs Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Félögin hafa tekið höndum saman og æfa nú söngleikinn Gretti,eftir þá Egil Ólafsson, Þórarin Eldjárn og Ólaf Hauk Símonarson. En Ólafur Haukur á einmitt þrjátíu ára höfundarafmæli á þessu ári.Jón Páll Eyjólfsson leikstýrir verkinu og verður Grettir frumsýndur í byrjun marsmánaðar í Frumleikhúsinu við Vesturbraut.
Söngleikurinn var frumfluttur af Leikfélagi Reykjavíkur og þá við undirleik snillinga Þursaflokksins sáluga. Leikfélag Keflavíkur sýndi söngleikinn í Félagsbíó fyrir þrettán árum við metaðsókn og góða dóma. Aðalsöguhetjan er Breiðhyltingurinn ungi; Grettir Ásmundarson, einlægt meinleysisgrey, sem gengur illa að passa inn í lífsins púsluspil. Ekki hjálpar til að fjölskylda hans, hin hreingerningaróða Ásdís móðir hans, launaþrællinn Ásmundur faðir hans, frjálshyggjumaðurinn Atli bróðir hans og Gullauga litla systir hans sem gengur í gegnum veggi og er í sambandi við huliðsheima, en þau vilja öll leiða Gretti inn á „rétta“ braut. Gretti dreymir bara um Siggu, mestu skvísuna í bænum en hún setur skilyrði fyrir ást sinni og leggur fyrir hann þrjár þrautir sem leiða Gretti á vit afbrota, vöðvaræktar og loks heimsfrægðar. En Grettir á sér fylgju úr heimi skugganna, drauginn Glám sem setur strik í reikninginn.
Söngleikurinn tekur að láni minni úr m.a Íslendingasögunum og Eddukvæðum og notar þau til að bera spegil að samtímanum og öllum hans „bólum“. Það er mikill fjöldi ungs fólks af Suðurnesjum sem tekur þátt í sýningunni og eru það bæði nemendur Fjölbrautaskólans og Leikfélagar ásamt öðru góðu fólki.
Stemningin er góð í hópnum og stefnir allt að ferskri og frumlegri sýningu..
Bílakjarninn
Bílakjarninn