Söngleikurinn Mamma Mia - Styrktarsýning í Heiðarskóla í kvöld
Leiklistarval Heiðarskóla frumsýndi á árshátíð skólans þann 19. mars söngleikinn Mamma Mia í leikstjórn þeirra Daníellu Hólm Gísladóttur, Estherar Níelsdóttur, Guðnýjar Kristjánsdóttur og Hjálmars Benónýssonar en öll eru þau kennarar við skólann. Það er í hefð fyrir því til margra ára að setja upp eina vorsýningu með leiklistarvalinu á árshátíð unglinganna sem síðan allir nemendur skólans fá tækifæri til að sjá á skólatíma auk þess sem aðstandendur leikaranna og almenningur hafa fengið að koma á sýningar.
Þá hefur verið hefð fyrir því að halda styrktarsýningu til styrktar góðu málefni og í ár á að styrkja Ljósið. Í Heiðarskóla hafa bæði starfsmenn og nemendur notið góðs af starfsemi Ljóssins og því varð það fyrir valinu í þetta skiptið. Allur aðgangseyrir lokasýningarinnar rennur til þess félags og er þetta gert af hugulsemi og væntumþykju þeirra sem að þessari sýningu koma. „Við erum bara alltaf svo heppin með hópa, hæfileikaríkir krakkar sem vilja láta gott af sér leiða,“ sagði Guðný Kristjánsdóttir leiklistarkennari sem hefur sett upp fjölmargar sýningar á undanförnum árum og hvetur fólk til þess að mæta og sjá þessa snillinga.
Lokasýningin verður í kvöld, fimmtudaginn 20. maí kl. 20:15 á sal Heiðarskóla. Miðaverð er 1.000 kr. (ekki er hægt að greiða með greiðslukortum).