Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Söngleikurinn Frelsi á árshátíð Heiðarskóla
Fimmtudagur 19. mars 2009 kl. 10:56

Söngleikurinn Frelsi á árshátíð Heiðarskóla

Árshátíð Heiðarskóla var haldin 13. mars sl. Hátíðin var þrískipt og komu nemendur prúðbúnir á sal skólans þennan hátíðisdag. Sú hefð hefur skapast í Heiðarskóla að allir nemendur í 1. - 7. bekk koma á svið á árshátíðinni og takk þátt í að gera þennan dag eftirminnilegan.
 
Nemendur í 1. og 2. bekk komu á svið undir stjórn forskólakennara tónlistaskólans og umsjónarkennara sinna og sungu lög og spiluðu á blokkflautur. Nemendur í 3. bekk röppuðu og voru með tískusýningu. Nemendur í 4. bekk enduðu svo fyrstu árshátíðina með því að vera með nokkurs konar Idol-keppni þar sem margar frægar stjörnur stigu á stokk.
 
Á miðstigsárshátíðinni stigu nemendur í 5. - 7. bekk á svið og sýndu fjölbreytt atriði. Nemendur í 5. bekk dönsuðu og voru með spjallþátt, nemendur í 6. bekk settu á svið leikrit um Búkollu í Reykjanesbæ og nemendur í 7. bekk voru með Kastljósþátt og söngatriði um fólkið í blokkinni. Þá sýndu nemendur úr dansvali dans og lag úr söngleiknum Frelsi var flutt.
 
Nemendur í 8. - 10. bekk hafa undanfarnar vikur verið að æfa söngleikinn Frelsi. Hann var frumsýndur á árshátíðinni. Frelsi er saminn af kennurum í Grundaskóla á Akranesi og var sýndur þar fyrir nokkrum árum. Verkið fjallar um unga stúlku, Fríðu sem flytur í bæ úti á landi. Þar verður hún fyrir aðkasti jafnaldra sinna vegna þess að hún á ekki allt það flottasta og besta sem er í tísku. Hún eignast þó tvær vinkonur Lenu og Önnu sem einnig fá að heyra háðsglósur skólafélaganna. Dag einn kemur illur andi inn í líf unglinganna í bænum og allt breytist. Hluti þeirra berst gegn þessum illa anda en aðrir kjósa að fylgja honum. Uppgjör verður óumflýjanlegt og margt gerist. Söngleikurinn fjallar um ýmis gildi í mannlegum samskiptum, tækninýjungar, tískustrauma og það hvernig mál geta tekið óvænta stefnu en auðvitað fer allt vel að lokum.
 
Næstu sýningar verða eins og hér segir.
4. sýning fimmtudaginn 19. mars kl. 20:00
 
Miðaverð kr. 1.000 og geisladiskurinn með lögum úr söngleiknum er til sölu á staðnum á kr. 1.500

Fleiri myndir í Ljósmyndasafni Víkurfrétta hér á vf.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024