Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Söngleikurinn „Er tilgangur?“ í 88 Húsinu
Þriðjudagur 15. febrúar 2005 kl. 13:46

Söngleikurinn „Er tilgangur?“ í 88 Húsinu

Söngleikurinn „Er tilgangur?“ eftir Júlíus Guðmundsson, var frumsýndur í 88 Húsinu föstudaginn 11. febrúar af leikfélagi Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Vox Arena. Sýningin er hin besta skemmtun og ljóst að allir sem komið hafa að sýningunni hafa unnið mikið þrekvirki við að koma verkinu á fót. Óhætt er að fullyrða að 88 Húsið sé vel í stakk búið til þess að halda leiksýningar og nýtt leikhús því búið að skjóta upp kollinum á Suðurnesjum.

„Er tilgangur?“ Fjallar um unglinginn Skúla sem leikinn er af Val Frey Eiðssyni með miklum ágætum. Skúli hefur misst áhugann á náminu við dræmar undirtektir föður síns en það er Arnar Bergmann Sigurbjörnsson sem leikur pabbann. Þegar Skúli tilkynnir föður sínum að hann ætli að hætta í skóla er honum vísað að heiman og þá hefst mikið ævintýri í lífi Skúla og hittir hann fyrir alls kyns fólk úr hinum ýmsu þjóðfélagsstigum.

Leik- og danshópurinn stendur sig með stakri prýði en þó er vert að minnast á nokkra sem hreinlega fara hamförum í sýningunni. Nokkarar af þeim skrautlegu persónum sem Skúli á leið með eftir að hann fer að heiman eru Matti frændi (Arnar Magnússon) og Biggi frændi ( Davíð Örn Óskarsson) en Arnar og Davíð fara á kostum. Slíkt hið sama gerir Hjalti Steinar Guðmundsson en hann leikur Tomma, besta vin Skúla. Að tilstuðlan Matta frænda fær Skúli skálkaskjól í kommúnu og þar kynnist Skúli m.a. henni Ólöfu (Kristín Lea Henrysdóttir) sem sýnir Skúla mikla athygli.

Tónlistin spilar vitaskuld mikinn þátt í verkinu en Berta Dröfn Ómarsdóttir sem leikur móður Skúla stendur sig geysilega vel og það á örugglega eftir að heyrast meira frá henni á söngsviðinu. Að ógleymdum dönsurum, sirkusfólki og mörgum öðrum persónum þá er sýningin rós í hnappagat Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Suðurnesjamenn hvattir til þess að fara í 88 Húsið og gera sér þar góða stund.

Leikstjóri sýningarinnar, Jón Marinó Sigurðsson, var að vonum kampakátur í lok frumsýningar. „Ég er alveg í skýjunum og rétt fyrir sýningu þá var allur hópurinn í hring hér baksviðs og við vorum að berja okkur saman fyrir átökin. Það væri óskandi að 88 Húsið yrði tekið í gagnið sem leikhús, aðstaðan hér er frábær og alveg kjörið að gera hér leikhús,“ sagði Jón Marinó að lokum.

Næstu sýningar eru á morgun, 16. febrúar, laugardaginn 19. febrúar og sunnudaginn 20. febrúar. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í síma 867 2090 eftir kl. 15 eða á www.88.is.

VF-myndir/ Héðinn Eiríksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024