Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Söngfuglinn sem byrjaði að blása í básúnu
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 5. september 2024 kl. 06:00

Söngfuglinn sem byrjaði að blása í básúnu

„Það eru sex ár frá síðustu plötu okkar svo það er kominn tími á nýja,“ segir stórsöngvarinn Valdimar Guðmundsson sem byrjaði ekki að syngja opinberlega fyrr en hann var að verða búinn í FS. Hann var þó byrjaður í tónlist miklu fyrr enda fékk hann mikið tónlistarlegt uppeldi þar sem pabbi hans, Guðmundur Hermannsson eða Mummi Hermanns eins og hann er betur þekktur, spilaði á hljómborð í hinum og þessum hljómsveitum í Keflavík. Þegar Mummi spurði Valdimar hvaða hljóðfæri pilturinn vildi læra á var svarið einfalt; „lúð.“
Nokkrum árum eftir að Valdimar hleypti söngfuglinum í sér á flug varð hljómsveit til sem heitir sama nafni og hann og fjórar plötur hafa litið dagsins ljós. Á síðustu Ljósanótt voru þær tvær fyrstu rifjaðar upp og á þessari verða þær tvær síðari leiknar í Bergi í Hljómahöllinni. 
Vinna hefst von bráðar við fimmtu plötuna.

Valdimar var snemma byrjaður að syngja en hafði samt engan áhuga á því hlutverki og lærði í staðinn á hljóðfæri að áeggjan foreldra sinna. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þegar pabbi spurði mig hvaða hljóðfæri ég myndi vilja læra á svaraði ég „lúð“, íslenskukunnáttan var ekki betri. Pabbi hafði alltaf verið hrifinn af básúnu-hljóðfærinu og ýtti mér í þá átt og eftir að hafa byrjað eins og allir í tónlistarskóla að læra á blokkflautu, tók básúnan við og ég kláraði fimm stig af átta í klassíkinni eins og þetta var þá og svo tók ég fjögur stig á rokk- og djazzbraut í FÍH. Ég var hættur að læra á básúnu tæplega 25 ára en 22 ára skráði ég mig í Listaháskólann og fór að læra tónsmíðar, útskrifaðiast árið 2010 og þar með lauk mínu tónlistarnámi og síðan hef ég verið að búa til tónlist.“

Söngfuglinn fæddist í FS

Vinir Valdimars höfðu lengi hvatt hann til að syngja en piltur hafði engan áhuga á því og það var ekki fyrr en í söngkeppni FS, Hljóðnemanum, sem fólk fékk fyrst að heyra söngrödd Valdimars.

„Ég þorði aldrei að syngja, spilaði bara á básúnuna. Svo náði ég að berja í mig kjark og tók þátt í Hljóðnemanum, þorði þó ekki að syngja einn og tók þátt með Árna vini mínum, við sungum Afgan eftir Bubba. Okkur fannst þetta gaman og þótti okkur ganga vel án þess að við hefðum hlotið sæti en svo lenti ég í þriðja sæti árið eftir. Við þetta jókst sjálfstraustið og mér bauðst að ganga í hljómsveit og hef í raun ekki litið til baka síðan má segja. Ég var strax farinn að semja og einhverjum árum síðar verður Valdimar til. Ég og Ásgeir Aðalsteinsson sem er með mér í Valdimar, vorum búnir að vera saman í ýmsum hljómsveitum og eitt leiddi af öðru og hljómsveitin Valdimar varð til árið 2009. Fyrsta platan okkar, Undraland, kom út árið 2010 og á henni er einn okkar helsti smellur, Yfirgefinn. Um stund kom út árið 2012, tveimur árum síðar kom Batnar útsýnið en svo liðu fjögur ár til þeirrar fjórðu, Sitt sýnist hverjum. Nú eru komin sex ár og við búnir að ákveða að hefja vinnu fimmtu plötunnar. Við ætlum að fara í bústað í næsta mánuði og fara semja en það eru til einhver lög nú þegar en hvenær þessi plata kemur út skal ósagt látið, snemma á næsta ári er kannski raunhæft en maður veit aldrei hversu langan tíma þetta tekur. 

Það var gaman að koma í Berg í Hljómahöllinni í fyrra á Ljósanóttinni og rifja upp fyrstu tvær plöturnar, þess vegna var gráupplagt að taka þær seinni fyrir í ár. Þessi salur, Berg, hentar afskaplega vel í svona concept því nándin er svo mikil, við köllum tónleikana Á trúnó, við ræðum um hvert lag og fólk fær að spyrja okkur spjörunum úr og einstök stemning myndast.“

Leiklist og söngur

Valdimar er ekki við eina listafjöl felldur, hann hefur komið að leiklist líka og hann syngur við ótal önnur tækifæri en bara með hljómsveitinni sinni. 

„Ég hef mjög mikið að gera við söng í útförum og svo koma alltaf upp einhver söngverkefni við hin og þessi tilefni. Þetta er mín vinna og ég hef nóg að gera má segja en ég hef líka komið nálægt leiklistinni og mun leika sjálfan mig í uppfærslu Borgarleikhússins á leikritinu Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar. Það verður gaman að taka þátt í því og ég hlakka til að hefjast handa við næstu plötu okkar í Valdimar, framtíðaráformin annars bara þau að halda áfram að syngja og taka því sem að höndum ber,“ sagði söngfuglinn Valdimar að lokum.