Söngfugl í Englaborginni
-Íris Einarsdóttir stundar nám í tónlistarskóla í Los Angeles þar sem hún nýtur lífsins
Íris Einarsdóttir stundar nám við Musicians Institute tónlistarskólann í Los Angeles í Kaliforníuríki Bandaríkjanna þar sem hún leggur stund á söng- og píanónám. Íris sem er úr Reykjanesbæ segist hafa heillast af skólanum þegar hún leitaði að spennandi kosti á erlendri grundu. Áður en hún hélt til Englaborgarinnar þá lagði hún hart að sér að safna peningum enda kostar sitt að lifa og læra vestanhafs.
Lengi hefur söngurinn blundað í Írisi en hún hefur þanið raddböndin frá unga aldri. „Ég hef alltaf haft áhuga á söng og öllu sem við kemur tónlist. Mamma skráði mig alltaf á söngnámskeið þegar ég var yngri og ég hef alltaf viljað fara eitthvert út að læra meira tengt tónlistinni,“ segir Íris. Hún velti fyrir sér að fara til London að læra en Bandaríkin heilluðu meira. Eftir að hún sagði mömmu sinni frá draumum sínum þá var ekki aftur snúið. „Mamma er rosalega dugleg að sparka í rassinn á mér og ýta mér út í hlutina. Hún hjálpaði mér alveg svakalega mikið og er algjörlega heilinn á bak við þetta,“ segir Íris og hlær. Hún segir það vera talsvert ferli að sækja um svona nám og þá sé gott að eiga góða að.
Gaman að upplifa nýja menningu og kynnast fólki
„Þetta er rosalega skemmtilegt. Ég elska að gera eitthvað nýtt og upplifa aðra menningu og kynnast nýju fólki,“ segir Íris þegar Víkurfréttir náðu af henni tali. Nokkuð hefur verið um gestagang hjá henni en hún leigir stúdíóíbúð í Hollywood-hverfinu fræga ásamt kærasta sínum sem ákvað að skella sér með til Los Angeles. Hann stundar nám við Santa Monica college. Fjölskyldan hefur heimsótt þau skötuhjúin og segir Íris að foreldrar hennar hafi veitt henni ómetanlega aðstoð í öllu ferlinu.
Íris ásamt kærastanum í Las Vegas.
Íris segir mikið líf vera í skólanum sem er opinn allan sólarhringinn. Þar er hún dugleg að nýta aðstöðuna og æfa sig af kappi. Nokkrir aðrir Íslendingar sækja skólann en Íris segir krakkana vera duglega að hittast og læra saman. Þegar hún er spurð út í námið þá segist hún hafa lært mikið á stuttum tíma, en hún hélt til Bandaríkjanna síðasta haust. „Kennararnir eru rosalega klárir og krakkarnir mjög skemmtilegir.“ Það er ekki allt dans á rósum í borginni en skóli Írisar er staðsettur við Hollywood boulevard þar sem mikið af heimilislausu fólki heldur til. „Það kemur alveg fyrir að það séu einhverjir vitleysingar að elta mann og svoleiðis. Sumir eru mjög ókurteisir og betlandi. Þá er bara best að setja upp heyrnartólin og láta eins og maður heyri ekkert,“ segir Íris og hlær.
Lífið leikur annars við Írisi enda er alltaf sól og sumar í Los Angeles. Hún mun útskrifast úr skólanum með Associate of Arts gráðu árið 2014 og hana hlakkar mikið til að takast á við það sem framtíðin ber í skauti sér. Hvað það verður er ei gott að segja en Íris segist ætla að njóta á meðan er. „Planið var bara að fara í skóla og hafa gaman í leiðinni. Það kemur svo bara í ljós hvert þetta leiðir,“ segir Íris jákvæð að lokum.