Söngdívan sem söng fyrir fjöruna og flugurnar
- Söngferill Ellyjar Vilhjálms á tónleikum Söngvaskálda í Hljómahöll
Fjallað verður um ævi og söngferil Ellyjar Vilhjálmsdóttur á tónleikum Söngvaskálda á Suðurnesjum í Hljómahöll næsta fimmtudagskvöld en þessi dáða söngkona hefur ávallt verið landsmönnum hugleikin, ekki síst þar sem hún var frekar dul að eðlisfari og dró sig snemma í hlé úr sviðsljósinu.
Dagný Maggýjar er einn af skipuleggjendum tónleikaraðarinnar, við tókum hana tali og fengum smá innsýn í líf söngkonunnar frá Merkinesi.
„Það má segja að það sé viss áskorun að fjalla um ævi og tónlistarferil Ellyjar því hún var hlédræg og lítið er til af rituðum heimildum um hana ef undanskilin er skáldsaga sem rituð var eftir hennar dag. Þá dró hún sig snemma úr sviðsljósinu, alltof snemma að margra áliti og hefur það gefið henni leyndardómsfullan blæ,“ segir Dagný en á tónleikunum verða flutt fjöldi laga sem hún gerði vinsæl á sínum ferli. „Sumir hafa reyndar verið að spyrja hver muni syngja Elly,“ segir Dagný og hlær, „en það verður auðvitað hann Elmar Þór sem flutt hefur alla tónlistina frá upphafi og söng m.a. lög Ingibjörgu Þorbergs með miklum sóma.“
„Elly sat oft á steini og söng fyrir sjóinn og flugurnar og Vilhjálmur gólaði úti um allar heiðar“
Hvaða mynd munið þið bregða upp af þessari ástsælu söngkonu og dívu?
„Elly er einkar áhugaverð persóna sem og þau systkin sem ólust upp á Merkinesi. Hún hefur verið skemmtilegur unglingur, þau systkin lásu mikið enda sá móðir þeirra Hólmfríður um bókasafn Hafna sem staðsett var í Merkinesi. Er sagt að Vilhjálmur, bróðir Ellyjar, hafi verið búinn að lesa allar þær bækur áður en hann fór í gagnfræðaskóla. Þá var tónlistin þeim í blóð borin, Elly sat oft á steini og söng fyrir sjóinn og flugurnar og Vilhjálmur gólaði úti um allar heiðar. Þau áttu ekki langt að sækja tónlistaráhugann en móðir þeirra söng í kirkjukórnum um árabil og Hinrik faðir þeirra lék á nikku og söng.“
Að sögn Dagnýjar var gagnfræðaskólinn á Laugarvatni áhrifavaldur í lífi margra tónlistarmanna sem síðar áttu eftir að vera þekktir og má þar nefna Vilhjálm og Þorstein Eggertsson. Þar hafi Elly séð heiminn í nýju ljósi og áttað sig á því að hún bjó yfir hæfileikum sem ekki voru öllum gefnir.
„Hún hefur verið algert náttúrutalent og ekki þurft að hafa mikið fyrir söngnum þótt hún hafi sjálf gert miklar kröfur til sín og sjaldan þótt hún nógu góð. Hún var þekkt fyrir einstaklega góða meðferð á texta og þá var hún tónvís, eitthvað sem hún átti sameiginlegt með Vilhjálmi bróður sínum. Rödd hennar var djúp og hljómmikil og sumir segja að hún hefði getað náð langt sem óperusöngkona.“
En Elly ætlaði að verða leikkona og hafði hafið nám í leiklistarskóla þegar hún ákvað að taka þátt í söngprufum hjá hljómsveit Kristjáns Kristjánssonar. Að sögn Dagnýjar varð ekki aftur snúið eftir það.
„Hún var ráðin á staðnum og var fljótt farin að syngja fimm eða sex sinnum í viku með hljómsveitinni. Hún vakti strax athygli fyrir fágaða framkomu og einstaklega glæsilega kjóla sem hún saumaði á sig sjálf, oftast eftir fyrirmyndum úr kvikmyndum. Það dugði ekki minna en þrír kjólar fyrir kvöldið og það var frekar kostnaðarsöm útgerð. Hún leitaði því eftir „útgerðarláni“ hjá bankastjóra og fékk. Það má því segja að hún hafi verið fullkomin í hlutverk söngdívunnar sem segja má að hafi verið hennar mesti leiksigur.“
Tónleikarnir fara að venju fram í Hljómahöll og verður umgjörðin með svipuðu sniði að sögn Dagnýjar eða afslöppuð stofustemmning þar sem flytjendur taka sig hófsamlega alvarlega.