Sólseturshátíð í Garði um helgina
Sólseturshátíð Garðbúa verður haldin með pompi og prakt nú um helgina. Dagskráin á laugardeginum er þétt og kennir ýmissa grasa. Má þar nefna allskonar leiki, gönguferðir og sýningar auk þess sem fjöllistahópur verður á svæðinu. Fjölbreyttur hópur tónlistarfólks treður svo upp á sviðinu og þar má nefna Kristján Kristjánsson eða KK eins og hann er oftast nefndur.
Erna M. Sveinbjarnardóttir, skólastjóri Gerðaskóla, er formaður ferða- og menningarnefndar og segir hún að fólk megi búast við mikilli skemmtun. "Undirbúningurinn hefur gengið ljómandi vel og allt er að smella saman. Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin og verður hún með svipuðu sniði og í fyrra. Við höfum þó reynt að þétta dagskrána og hafa hana enn fjölbreyttari," segir Erna.
Í fyrra sóttu um þrjú þúsund manns hátíðina og vonast Garðbúar að enn fleiri sæki þá heim í ár. Frítt er á tjaldstæði og flestir atburðir eru án endurgjalds.
"Í fyrra viðraði vel á okkur og vonandi verður það eins í ár. Að sjálfsögðu vonumst við líka eftir fallegu sólsetri," sagði Erna, því eins og flestir vita eru fáir staðir á landinu þar sem sólsetrið er jafn fallegt og á Garðskaga.
Mynd / www.kk.is