Sólseturshátíð á Garðskaga um helgina
Sólseturshátíðin í Garði verður nú um helgina og er búist við fjölmenni á Garðskaga. Sólseturshátíðin er að festa sig í sessi sem bæjarhátíð Garðmanna en fjölmargir Garðmenn taka sig upp þessa helgi og setjast að á Garðskaga í húsbílum og fellihýsum. Þá koma margir brottfluttir Garðmenn til endurfunda á æskuslóðum þessa helgi.
Dagskrá sólseturshátíðarinnar hefst á föstudaginn. Þá verður dagskrá við sjoppuna í Garði þar sem Dúddarnir sjá um glens og gaman. Grillað verður fyrir hjólafólk sem tekur þátt í hjólreiðaferð sem hefst kl. 16 við Sparisjóðinn í Garði. Þaðan verður hjólað út á Garðskaga og til baka að sjoppunni. Þar verður einnig hoppikastali og veltibíll.
Garðmenn ætla að skreyta hús sín og garða í sérstökum hverfislitum og eru íbúar hvattir til að taka þátt í því.
Laugardagurinn er aðaldagur hátíðarinnar. Dagskráin hefst kl. 11 með menningartengdri sögugöngu. Kl. 12 á hádegi koma bifhjólamenn úr Örnum á svæðið og þá er einnig væntanleg þyrla frá Landhelgisgæslunni sem mun sýna björgunaræfingar. Hátíðin sjálf verður sett kl. 13 og á hátíðarsvæðinu verður fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Söngur og gleði, hæfileikakeppni, sýningar og leiktæki af ýmsum gerðum. Fjölbreytt skemmtun fyrir börn er á svæðinu. Skoppa og Skrítla koma í heimsókn og leiktæki verða á staðnum.
Vönduð kvölddagskrá er á laugardagskvöldinu sem stendur frá kl. 20-23. Þar verða Víkingarnir, Lísa úr Idol syngur, Ingó og Veðurguðirnir, harmonikkutónar, Vignir og Sólseturslagið, brenna og brennusöngur, því engin er brekkan á Garðskaga.
Á sunnudeginum verða síðan stofutónleikar í Garðskagavita þar sem gestir geta notið ljúfra tóna áður en haldið er heim á leið.