Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sólóplata og útgáfutónleikar hjá Þresti Jóhannessyni
Fimmtudagur 6. apríl 2006 kl. 15:31

Sólóplata og útgáfutónleikar hjá Þresti Jóhannessyni

Tónlistarmaðurinn og Keflvíkingurinn Þröstur Jóhannesson er nú að gefa út sína fyrstu sólóplötu sem ber nafnið Aðrir sálmar. Í tilefni af útgáfunni blæs Þröstur til tónleika í Hömrum á Ísafirði þann 12. apríl nk. Að sögn Þrastar hefur platan verið lengi í vinnslu.

„Ég hef verið að vinna í þessu alveg síðan síðasta sumar og nú er þetta að smella“, segir Þröstur. Formlegur útgáfudagur plötunnar er einnig 12. apríl. Aðspurður um hvers lags tónlist sé á plötunni segir Þröstur ekki auðvelt að lýsa því.

„Þetta er kassagítarsplata. Ég leik mér svolítið með formið, en svo er það ekki alveg satt heldur því það eru líka útsetningar fyrir hljómsveit á plötunni.“

Á tónleikunum koma fram valinkunnir listamenn Þresti til halds og trausts. Þar má nefna leikarann fræga Baldur Trausta Hreinsson sem syngur ásamt Gabríelu Aðalbjörnsdóttur og Ingvar Alfreðsson þenur nikkuna. Þá má búast við því að hljómsveitin Unaðsdalur mæti á svæðið og sýni á sér nýja hlið.

Þröstur hefur leikið músík um árafjöld, enda fæddur í rokkbænum Keflavík og hefur verið búsettur í rokkbænum Ísafirði í um sjö ár. Hann hefur áður leikið með hljómsveitum á borð við Unaðsdal, Texas Jesús. Hinum guðdómlegu neanderdalsmönnum, Ofrisi og kántríhljómsveitinni Vonlausa tríóið.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20.30 og miðaverð er litlar 500 krónur.

Frá þessu er greint á vef Bæjarins besta, www.bb.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024