Sólborg í undanúrslit Eurovison
Sólborg Guðbrandsdóttir, söngkona og blaðamaður úr bítlabænum Keflavík er komin áfram í undanúrslit söngvakeppninni 2018 vegna Eurovision söngvakeppninar. Sólborg syngur lagið Ég og þú/Think it through með Tómasi Helga Wehmeier en lagið er eftir þau tvö og Rob Price. Íslenskur texti er eftir Davíð Guðbrandsson, bróður Sólborgar.
Undanúrslitin fara fram í Háskólabíói, laugardagana 10. og 17. febrúar. Úrslitakvöldið verður í Laugardalshöll 3. mars. Bakraddir í laginu syngja þau Sigríður Guðbrandsdóttir og Sigurður Smári Hansson en hann hefur verið í eldlínunni í hlutverki Lilla Klifurmúsar í flutningi Leikfélags Keflavíkur á Dýrunum í Hálsaskógi.
Sólborg er eini þátttakandinn frá Suðurnesjum sem er komin í undanúrslit. Hún er spennt fyrir verkefninu og segist hæfilega bjartsýn á framhaldið.
„Við Tómas vorum bæði í Team Svala í The Voice Ísland í fyrra og kynntumst þannig. Hann hafði samband við mig snemma árs í fyrra og bað mig um að taka þátt í þessu með sér. Við enduðum svo á því að fljúga til London þar sem lagið var fullklárað, tekið upp og svo sent í Eurovision,“ segir Sólborg.
Lögin verða flutt á íslensku í undanúrslitum, sex lög keppa hvort kvöld. Þau þrjú lög sem hljóta flest atkvæði í símakosningu hvort undankvöld tryggja sér sæti í úrslitum. Því keppa sex lög til úrslita í Söngvakeppninni í Laugardalshöll 3. mars. RÚV hefur þó heimild til að bæta auka lagi, svokölluðum Svarta Pétri, í úrslitin. Líkt og síðustu ár býðst almenningi að kaupa miða á viðburðina og miðasala hefst fimmtudaginn 25. febrúar á tix.is. Kynnir keppninnar í ár er Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, en hún er einnig í framkvæmdastjórn keppninnar eins og síðastliðin ár.
Sigurlag Söngvakeppninnar verður framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem haldin verður í Lissabon í Portúgal dagana 8., 10. og 12. maí. Stórskotalið úr íslensku tónlistarsenunni í bland við spennandi nýstirni flytja lögin tólf í ár, segir í frétt á ruv.is.