SÓLARGEISLI FRÁ INDLANDI
Í upphafi ætluðu þau Sigfús og Laufey að ættleiða barn frá Kólumbíu en þar reyndist biðtíminn mjög langur.„Við fréttum að Indland væri auðveldari leið en þar eru börnin ættleidd yngri og biðtiminn styttri”, segir Sigfús. „Eftir að hafa fengið tilskilin leyfi biðum við fram í maí á þessu ári þar sem við fengum að vita að við mættum eiga von á barni innan skamms. Um miðjan mánuðinn er okkur sagt frá því að barnið væri fætt og seinna fengum við að vita það væri stúlka”. Þau Sigfús og Laufey voru búin að ákveða nafn á á barnið ef það yrði stúlka og nefndu hana strax. Ættingjum var síðan fljótlega tilkynnt að stúlkan héti Birta Rut. Að sögn þeirra Sigfúsar og Laufeyjar gerði það tilveru Birtu Rutar persónulegri strax frá upphafi.“Það var mjög skrítin tilfinning að sjá mynd af henni fyrst. Mér brá eiginlega”, segir Laufey. “Allt í einu var hún þarna og ég þurfti að horfa aftur og aftur á myndina til þess að venjast því að ég ætti þetta barn. En eftir smástund fannst mér hún vera fallegasta barnið sem til væri”.Sigfús tekur undir það og segir Birtu Rut hafa litið ósköp umkomulausa út í fyrstu.”Við fengum síðan allar upplýsingar um hana eins og læknaskýrslur sem sýndu að hún væri frísk og heilbrigð”.Um mánaðarmótin ágúst/september tók við ferðalag til Indlands til þess aðsækja Birtu Rut.„Okkur fannst þetta alveg ótrúlegt land og það kom okkur nokkuð á óvart. Okkur fannst fátæktin ekki eins mikil og við höfðum haldið”, segir Laufey og Sigfús rifjar upp ökuferð með bílstjóra á Indlandi sem notaði ekki bílljósin nema í ítrustu neyð og flautaði í staðin þegar hann keyrði fyrir horn.„Þetta var mikill spenningur. Við komum til Nýju Dehli að nóttu til og það var skrítið að ganga út úr flugstöðinni í mannfjöldann sem hreinlega ætlaði að rífa af okkur farangurinn. Við höfðum verið svo hagsýn að taka með okkur bakpoka og vorum ekki með mikið með okkur fyrir utan burðarrúmið hennar Birtu Rutar”.Þau hjónin nýttu næstu daga til þess að skoða sig um í borginni og þar um kring enda gerð krafa um að foreldrar ættleiddra barna geri sér far um að kynnast land inu að einhverju ráði. Skoðuðu þau meðal annars Taj Mahal við Agra á Norður Indlandi sem þau sögðu mjög áhrifamikið. Síðan héldu þau sem leið lá til Kalkútta til þess að ná í Birtu Rut.„Við vorum mjög spennt að hitta hana en því var frestað fram á næsta dag. Maður sat bara með kökkinn í hálsinum í leigubílnum þegar okkur var sagt frá því en við hugsuðum sem svo að það væri auðvelt að sætta sig við það að bíða í einn dag í viðbót því við höfðum beðið svo lengi”, segir Laufey.Daginn eftir biðu þau Sigfús og Laufey á hótelinu eftir Birtu Rut og voru mjög spennt. Þau voru á síðustu stundu og leigubíllinn beið eftir því að flytja þau á flugvöllinn þar sem þau áttu að vera mætt fljótlega.Með í för voru önnur hjón sem einnig biðu eftir stúlku frá sama barnaheimili. Segir Sigfús að eiginkonurnar hafi þurft að bregða sér á klósettið en í sömu mund komu stúlkurnar á hótelið. „Enda var fyrsta spurning fólksins frá barnaheimilinu þegar það sá okkur tvo í andyrinu „Hvar eru mæðurnar””,segir Sigfús og hlær.Það fyrsta sem Laufey sá þegar hún kom til baka var Birta Rut sem þá var í fangi læknis frá barnaheimilinu og spurði hann hver væri móðir Tiashu sem er það nafn sem Birta Rut bar á Indlandi. „Hún komst í svo mikið uppnám að hún hreinlega reif hana úr höndunum á lækninum. Það var alveg stórkostlegt að vera komin með þennan einstakling í hendurnar”, segir Sigfús „nánast óraunverulegt”.Ferðin heim gekk vel en í flugvélinni á leiðinni hittu þau indverska konu frá New York sem einmitt starfaði við það að kenna mæðrum fyrstu handtökin.„Hún sá strax að við vorum nýir foreldrar. Birta Rut hjalaði við hana enda þekkti hún tungumálið en það tók hana nokkurn tíma að venjast íslenskunni og þessum skrítnu andlitum”.Heil mótttökunefnd beið nýju fjölskyldunnar í Leifsstöð þegar þau komu heim eftir 21 klst. ferðalag. “Það voru 30 manns á flugvellinum og hafði frændi Laufeyjar skreytt leigubíl sem keyrði með okkur einn hring um bæinn. Það var eins og við værum nýgift. Þegar við komum heim beið okkar stór terta sem á stóð “„Velkomin heim” og haldin var veisla. Síðan vöskuðu ættingjarnir og vinirnir upp og létu sig hverfa. Þá fundum við fyrir því hvað við vorumorðin þreytt og viðbrigðin voru mikil að vera þarna komin með nýjan einstakling”.Sigfús tók sér feðraorlof til þess að vera með Laufeyju og Birtu Rut og sagði það hafa verið dásamlegt. Einnig segir hann jólin fá aðra merkingu með tilkomu hins nýja einstaklings.„Þetta verða allt öðruvísi jól og miklu innihaldsríkari.Hún Birta Rut er mikill gleðigjafi í lífi okkar en stærsta breytingin er sú að við erum orðin fjölskylda”, segir Sigfús og neitar því ekki að það verði gaman að horfa á hana opna pakkana á aðfangadagskvöld.„Hún kemur í kirkju með okkur á aðfangadag en við höfum verið dugleg að taka hana með í kirkjuna enda finnst okkur það eðlilegt. Hún hefur farið í sunnudagaskólann þar sem við fræddum krakkana um það hver hún væri og af hverju hún hefði annan litarhátt en þau. Þau tóku því mjög vel og fannst í raun ekkert sjálfsagðara”, segir Laufey brosandi. “Það hafa allir tekið henni opnum örmum og fyrir það erum við þakklát. Við höfum mætt einstakri hlýju og Birta Rut hefur fengið fjölda gjafa”.Þegar Laufey og Sigfús eru spurð að því hvort þau ætli einhvern tíman með Birtu Rut aftur til Indlands svara þau “já, ef hún vill það sjálf. Við munum leggja okkur fram í að segja fræða hana um landið og uppruna hennar”.Þau segja marga hafa talið að þau hafi verið að gera góðverk með því að taka Birtu Rut en þau taka það fram að í raun hafi þau ekki gert það að hugsjón.„Það er dásamlegt að geta boðið barni upp á betra líf en það hefði annars átt möguleika á en við gerðum það að sjálfstöðu fyrst og fremst vegna þess að okkur langaði til að eignast barn”.Laufey tekur undir orð Sigfúsar. “Í dag get ég með sanni sagt að ég er innilega þakklát að þetta átti fyrir okkur að liggja en Birta Rut reyndist rétta barnið fyrir okkur”.