Sól slær silfri á Voga

-Fjölskyldudagar Voga haldnir í tuttugasta og annað skipti

Fjölskyldudagar Sveitarfélagsins Voga verða haldnir hátíðlegir dagana 13.-19. ágúst. Þetta er í tuttugasta og annað skipti sem hátíðin fer fram og verður hún stútfull af skemmtilegri fjölskyldudagskrá. Fjölskyldudagar eru kjörið tækifæri fyrir fjölskyldur og vini til að eiga góðar samverustundir og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Margt verður á dagskrá og má m.a. nefna margar íþróttakeppnir, söngstemmingu í Háabjalla á miðvikudagskvöldið, varðeld og grill á föstudagskvöldið. Laugardagurinn er ekki af verri endanum en þá verður söng- og hæfileikakeppni, akstur fornbíla, Sirkus Íslands, hverfaganga, flugeldasýning svo að eitthvað sé nefnt.

Það fer einnig fram tónlistarveisla í Aragerði á laugardagskvöldið þar sem Hr. Hnetusmjör, Úlfur Úlfur, Helgi Björns og Magni ætla að halda uppi fjörinu.

Aðgangur að öllum viðburðum á fjölskyldudögunum er ókeypis.