Sól slær silfri á Voga
Fjölskylduhátíð í Vogum um næstu helgi.
Fjölskyldudagar verða haldnir hátíðlegir í Sveitarfélaginu Vogum um næstkomandi helgi, eða 14. - 17. ágúst. Eins og nafnið ber með sér verður hátíðin stútfull af skemmtilegri dagskrá fyrir alla fjölskylduna og kjörið tækifæri fyrir fjölskyldur og vini til að eiga saman góðar samverustundir.
Meðal þess sem verður í boði er hverfaganga, þar sem íbúar gula, rauða og græna hverfisins munu ganga sín á milli og enda í Aragerði þar sem hverfaleikar fara fram. Þá verður fjölskyldudagsgolf, vígsla nýrrar og glæsilegrar áhorfendastúku við knattspyrnuvöllinn, fótboltaleikur, brekkusöngur, minningarsýning, kassabílarallý, ökuleikni, Brúðubíllinn, handverksmarkaður, Ævar vísindamaður, söng- og hæfileikakeppni, sápuboltamót, fjársjóðsleit, karamelluflug, Bubblebolti, skemmtisigling, fjölskyldudorgveiði og flugeldasýning.
Aðgangur að öllum viðburðum er ókeypis.