Söknuður af Tímariti Víkurfrétta
„Árið í ár er mikið fréttaár og því erfitt að velja. En ætli ég verði ekki að taka kosningarnar og þá staðreynd að það varð engin breyting á bæjarstjórnarmeirihlutanum hér í Reykjanesbæ þó það lægi fyrir að fyrri meirihluti sjálfstæðismanna hefði siglt bænum í strand. Og það er auðvitað stórfrétt að Jón Gnarr sé orðinn borgarstjóri í Reykjavík, ég satt að segja átti alls ekki von á því,“ segir Kristlaug María Sigurðardóttir, sem starfaði sem blaðamaður Víkurfrétta frá því um haustið 2001 fram á útmánuði 2002.
„Mér fannst eldgosin í Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökli líka mjög fréttnæm og góð að því leyti að þá hættu þessar leiðinlegu fréttir af stjórnmálum, útrásarskúrkum og öðru slíku sem fer frekar mikið í taugarnar á mér. Síðan er frétt sem fór frekar lítið fyrir hérna rétt fyrir jólin um að Magma hefði lokið kaupum á HS Orku. Mér finnst það stórfrétt og ekki góð fyrir almenning hér á svæðinu en það fór lítið fyrir henni í fjölmiðlum. Síðan auðvitað kusum við tvisvar á árinu fyrir utan sveitastjórnakosningarnar það er að segja fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram (þar sem ég veit ekki ennþá um hvað kosningin snerist) og svo stjórnlagaþingið. Góðu fréttirnar hérna af Suðurnesjum eru öll litlu fyrirtækin, frumkvöðlafyrirtækin og nýsköpunin sem hefur blómstrað í kreppunni og segir manni að hér gefst fólk ekki upp þó á móti blási“.
Eftirminnileg frétt eða annað eftirminnilegt frá starfsárum þínum á Víkurfréttum?
„Ég man nú ekki eftir neinni sérstakri frétt þennan tíma sem ég vann á Víkurfréttum, en ég man að það var mikið að gera á ritstjórninni vegna þess að Víkurfréttir gáfu út Tímarit Víkurfrétta annan hvern mánuð og var það iðulega stútfullt af mannlífsfréttum af svæðinu og í raun er söknuður af því blaði. Ef ég ætti að telja eitthvað til þá voru það viðtölin sem ég man helst eftir, ég tók til dæmis viðtal við Völvu Víkurfrétta þarna áramótin 2001-2002, en ég man ekki hvað hún sagði eða hvort eitthvað rættist af því sem hún sagði. Hitt sem var líka athyglisvert á þessum tíma var vefur Víkurfrétta. Hann leit öðruvísi út þá og var minna flokkaður en núna en það var mikill metnaður að koma nokkrum fréttum á vefinn daglega og hann var mjög lifandi og á púlsinum á því sem var að gerast um öll Suðurnesin. Þannig að fyrir utan það að vera ljósmyndari þá var maður blaðamaður á þremur miðlum, sem var mjög lærdómsríkt og gaman,“ segir þúsundþjalasmiðurinn Kristlaug María Sigurðardóttir eða Kikka.