Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sóknarfærin á Suðurnesjum nær endalaus
Reynir Sveinsson leiðsögumaður úr Sandgerði hlaut Þakkarverðlaun ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum á dögunum. Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar hlaut svo Hvatningarverðlaun.
Föstudagur 11. mars 2016 kl. 06:00

Sóknarfærin á Suðurnesjum nær endalaus

- Viðtöl við verðlaunahafa þakkar- og hvatningarverðlauna

Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar hlaut í síðustu viku Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi 2016 og Reynir Sveinsson, leiðsögumaður og ljósmyndari úr Sandgerði, hlaut Þakkarverðlaun ferðaþjónustunnar. Verðlaunin voru afhent á vetrarfundi Markaðsstofu Reykjaness í Hljómahöll. Stjórnir Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness stóðu að útnefningunni. 

 
Listamenn heillaðir af náttúru og mannlífi
Listahátíðin Ferskir vindar er haldin annað hvert ár í Garði og stendur í fimm vikur yfir háveturinn. Á listahátíðina koma um fimmtíu listamenn víða að úr heiminum. Að sögn Mireyu Samper, listræns stjórnanda Ferskra vinda, hafa verðlaunin mikla þýðingu fyrir Ferska vinda. „Þetta er merki um að við séum að vinna gott starf og að fólk taki eftir því. Verðlaunin eru ekki síður mikilvæg gagnvart samfélaginu og sýna fram á það að bæjarfélagið er að gera þetta með okkur. Með samstöðu er hægt að gera og góða hluti þó að bæjarfélagið sé lítið,“ segir hún.
 
Mireya er myndlistarmaður og sýnir verk sín um allan heim. Hún segir það mikla gæfu því að á ferðum sínum kynnist hún listamönnum sem hún svo býður að taka þátt í Ferskum vindum. Mireyja segir listamennina oft orðlausa yfir umhverfinu á Suðurnesjum. „Einu sinni kom til okkar maður frá Víetnam sem hafði aldrei áður farið til útlanda. Hann skildi ekkert í því að það væri ekkert af fólki hérna og allt svo berangurslegt. Ótrúlega margir tala líka um að þeir endurfæðist við að dvelja hérna. Fólk er hrifið af náttúrunni, fuglalífinu og mannlífinu enda er svæðið einstakt. Þegar ég kom hingað á skagann í fyrsta sinn hugsaði ég með mér að sóknarfærin væru á hverju strái.“
 
Segir mannlífssögur
Reynir Sveinsson hlaut í síðustu viku Þakkarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi. Hann segir það hafa verið góða tilfinningu að taka við verðlaununum og að hann sé þakklátur. Reynir hefur verið leiðsögumaður í yfir tuttugu ár. „Mér er alltaf minnisstætt þegar ég fór í rútuferð með Jóni Böðvarssyni, þáverandi skólameistara FS. Við keyrðum um Reykjanesskagann og ferðin tók nær allan daginn. Á leiðarenda sagðist hann næst vilja fara í ferð út í Leiru, Garð og Sandgerði því þar væri svo mikil saga. Það er sú saga sem ég hef verið að segja sem leiðsögumaður. Ég tíunda ekki hvað hraunin heita því þau hafa verið hér alla tíð. Ég krydda allar sögurnar mínar með mannlífssögum og það hefur reynst vel.“ 
 
Hvalsneskirkja og Hallgrímur Pétursson vekja alltaf vekja mesta athygli, enda er stórkostleg saga allt í kringum Hvalsnes, að sögn Reynis. Hann er bjartsýnn á framtíð Reykjaness og segir sóknarfærin mikil. Aðspurður um hvað sé skemmtilegast á Suðurnesjum segir Reynir náttúruna úti á Reykjanesi stórkostlega en þangað hefur hann farið nokkrum sinnum frá áramótum. Þar þurfi þó að bæta aðgengi, salernisaðstöðu og fleira. „Ferðaþjónustan í Sandgerði hefur vaxið mikið að undanförnu og hjá okkur er komið mjjög gott tjaldsvæði. Þar er verið að byggja fjögur ný þjónustuhús. Svo eru eigendur Veitingahússins Vitans að fara að endurgera æskuheimilið mitt og gera úr því gistiheimili.“ Reynir segir sóknarfærin á Suðurnesjum alls staðar og að fólk þurfi að standa saman en ekki hver og einn í sínu horni. „Við eigum framtíðina bjarta fyrir okkur.“
 
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024