Soho fer í nýtt og stærra húsnæði
Örn Garðarsson stækkar við sig.
Örn Garðarsson matreiðslumeistari hefur keypt húsnæðið við Hrannargötu 6 þar sem Ragnarsbakarí var áður til húsa. Örn er eigandi veisluþjónustunnar Soho sem staðsett hefur verið í Grófinni 10c í Reykjanesbæ. Í haust mun Örn flytja alla starfsemina í nýja húsnæðið og við það stækkar aðstaðan um helming frá núverandi aðstöðu í Grófinni. Þetta kemur fram á vefsíðu Veitingageirans.
Í samtali við fréttamann síðunnar segist Örn ekki vera búinn að ákveða hvað hann mun gera við núverandi húsnæði; hvort það verður leigt eða selt. Miklar framkvæmdir, ýmsar nýjungar og aukin þjónusta séu framundan hjá veisluþjónustunni Soho.