Sögutengd ganga á sunnudaginn
Tólfta og síðasta menningar- og sögutengda gönguferð sumarsins 2009 í gönguröðinni AF STAÐ á Reykjanesið verður á sunnudaginn. Mæting er við Duushús í Reykjanesbæ kl.11.
Gengið verður með Berginu út fyrir Helguvík í átt að Leiru og þaðan upp að gömlu þjóðleiðinni Sandgerðisvegi. Leiðinni verður síðan fylgt í Grófina þangað sem flestar þjóðleiðirnar lágu á Suðurnesjum um aldir. Svæðið býr yfir ótal mörgum sögum og minjum. Þátttökugjald er kr. 1000. Frítt fyrir börn undir 12 ára aldri. Vegalengdin er um 6 km og tekur 3 – 4 tíma með stoppum. Gott er að vera í góðum gönguskóm og með nesti. Gengið á mel og í grasi.
Ferðamálasamtök Suðurnesja styrkja ferðina. Samtökin hafa staðið fyrir því að láta stika gamlar þjóðleiðir á Reykjanesskaga og gefa út myndkort af þjóðleiðum. Jafnframt hafa þau gefið út gönguleiðaleiðabæklinga af Sandgerðisvegi og Garðstíg. Bæklinga og göngukort er hægt að kaupa hjá upplýsingamiðstöð ferðamála Krossmóa 4.