Sögulegt borgarskot í appelsínugulum spandexgalla
Hann verður lengi í minnum hafður, náunginn sem mætti á leik Keflavíkur og Njarðvíkur í Ljónagryfunni nú á dögunum og setti niður hið eftirsótta borgarskot, íklæddur mjög svo flottum spandexgalla í skærum, appelsínugulum lit.
Maðurinn bar sig fagmannlega og tók niður hlýrana á gallanum til að geta athafnað sig betur. Hann var ekkert nema öryggið uppmálað þegar skotið reið af frá miðju vallarins. Boltinn klauf rafmagnað andrúmsloftið og fór beint ofan í körfuna svo söng í netinu við gríðarlegan fögnuð áhorfenda. Að sjálfsögðu fagnaði okkar maður ógurlega.
Hvort hann ætli svo í spandexgallanum góða í utanlandsferðina sem hann vann skal ósagt látið. En allavega virðist þetta vera hin mesta lukkuflík eftir þessu að dæma.
Ekki vitum við nánari deili á manninum önnur en þau að hann heitir Helgi, samkvæmt því sem karfan.is greinir frá. Við óskum honum að sjálfsögðu til hamingju með þetta afrek og þann kjark sem hann sýndi með því að mæta í gallanum góða. Maður á bara alltaf að vera maður sjálfur, sama hvað öðrum finnst.
Myndinar fengum við lánaðar hjá vinum okkar á www.karfan.is