Söguganga með tónlistar ívafi
Einn af viðburðum á Safnahelgi á Suðurnesjum síðustu helgi var söguganga með tónlistar ívafi. Lagt var af stað frá Ráðhúsi Reykjanesbæjar eftir hádegi á laugardeginum í fylgd Rannveigar Lilju Garðarsdóttur, leiðsögumanns og starfsmanns Bókasafns Reykjanesbæjar.
Gengið var í átt að Keflavíkurkirkju en þar var fyrsti viðkomustaðurinn á leiðinni. Magnús Kjartansson tónlistarmaður tók á móti göngufólki og fylgdi hópnum inn í Kirkjulund. Maggi Kjartans, eins og hann er ávallt kallaður, sagði frá æskuminningum og tónlistarlífinu í Keflavík. Hann ólst upp við Kirkjuteiginn og sagði margar skemmtilegar sögur af lífinu við Kirkjuteiginn á þeim tíma sem hann var að alast upp. Hann sagði einnig frá því að tónlistarferilinn hefði hafist í Keflavíkurkirkju og í Drengjalúðrasveit Keflavíkur. Fyrstu hljómsveitaæfingarnar voru í bílskúr þar sem þurfti að krönglast yfir sandhrúgu og fram hjá steypuhrærivél til að komast að hljóðfærunum. Maggi Kjartans hefur verið í mörgum hljómsveitum í gegnum tíðina og má þar nefna hljómsveitir eins Óðmenn, Júdas og Trúbrot.
Gönguhópurinn hélt svo áfram göngu sinni og var næsti áfangastaður æskuheimili Rúnars Júlíussonar við Sólvallagötu. Þar var farið niður í kjallara í gamla herbergið hans Rúnars en þar voru Hljómar með æfingar. Á veggjum og lofti mátti sjá ýmisleg listaverk og texta eftir Rúnar og jafnvel aðra meðlimi Hljóma.
Gangan hélt svo áfram upp á Skólaveg í Rokkheim Rúnars Júlíussonar en þar bjó Rúnar Júlíusson lengstum ævi sinnar. Júlíus Guðmundsson, sonur Rúnars, tók á móti hópnum og tók nokkur lög eftir föður sinn á meðan göngufólk gekk um safnið og hljóðverið. Áfram hélt gangan og var gengið eftir Hringbrautinni með stuttu stoppi við Stóru blokkina eins og hún var ávallt kölluð. Sagðar voru nokkrar sögur af þessu svæði.
Júlíus Guðmundsson, sonur Rúnars Júlíussonar, tók nokkur lög eftir föður sinn.
Áfram var gengið og var næsti áfangastaður í verslunarkjarnanum í Krossmóa. Þar tók á móti hópnum Vignir Bergmann tónlistarmaður sem var á meðal annars í hljómsveitum eins og Júdas og Roof Tops. Hann sagði sögur úr tónlistinni og frá lífinu í og við Krossinn en Krossinn var einn vinsælasti ball- og tónleikastaður landsins á upphafstíma poppsögunar á Íslandi. Vignir var einnig með gítarinn meðferðis og tók lög af disknum Sögur af Suðurnesjum sem hann gaf út fyrir nokkrum árum ásamt textaskáldinu Bjartmari Hannessyni. Næst var gengið að minningarsteininum um Krossinn sem er stutt frá Krossmóanum. Þar las Rannveig upp úr gömlu bréfi frá leigubílstjóra úr Reykjavík þar sem hann skrifaði um lífið í og við Kossinn á þeim tíma sem staðurinn var hvað vinsælastur. Sögugöngunni lauk svo í Rokksafni Íslands í Hljómahöllinni.