Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Sögu- og náttúrugönguferðir um Vatnsleysuströnd og Voga í maí
Vogar.
Mánudagur 4. maí 2015 kl. 09:01

Sögu- og náttúrugönguferðir um Vatnsleysuströnd og Voga í maí

Viktor Guðmundsson, Þorvaldur Örn, Haukur Aðalsteinsson o.fl. standa fyrir fjórum gönguferðum í maí. Tilgangurinn er líkamsþjálfun og að upplifa náttúru og sögu Voga og Vatnsleysustrandar. 

Þrjár þessara ferða eru m.a. tileinkaðar rithöfundinum Jóni Dan sem fæddist á Brunnastöðum fyrir 100 árum og sögusviðið í mörgum bóka hans eru Vogar og Vatnsleysuströnd.  Það á einkum við um bækurnar  1919 – árið eftir spönsku veikina;  atburðirnir á Stapa og Sjávarföll. Sérstaklega verður hugað að örnefnum og stöðum sem koma við sögu í þeim bókum. 

Hver ganga tekur rúmlega 3 klst. og hefjast kl. 19 á tilgreindum upphafsstað, nema sú síðasta kl. 16 á helgidegi. 
 
Fólk mætir á einkabílum og skilur þá eftir við upphafsstað en í lok göngu verða bílstjórar ferjaðir til að sækja bílana svo ekki þurfi að ganga til baka. Gott að hafa með sér smá nesti og auðvitað klæðnað eftir veðri og góða skó. 
 
Ef einhverjir treysta sér ekki til að ganga alla leið er hægt í samráði við fararstjóra að stytta gönguna eða nota bíl að hluta.


 
Þri. 5. maí kl. 19:00. Gengið frá Flekkuvík að Bakka um Keilisnes. Þar er náttúrufegurð og merkar fornminjar sem fáir hafa séð og fyrirhugað stóriðnaðarsvæði. Gengið í mólendi, lítið um götur. Mæting er við túngarðinn á Bakka, sem er næsti bær austan við Kálfatjörn, vel merktur afleggjari frá Vatnsleysustrandarvegi. Þar er sameinast í bíla og ekið að Flekkuvík. Flekkuleiði skoðað, brunnar, varir, strandlengjan gengin fyrir Keilisnes og endað á Bakka. Um 5 km ganga.


 
Mán. 11. maí kl. 19:00. Gengið frá Kálfatjörn að Brunnastöðum, að nokkrum hluta hluta til kirkjugötuna sem faðir Jóns Dan gekk með orgel á bakinu, 7 km. Mæting við Kálfatjarnar-kirkju. Endað á Brunnastöðum og bílstjórar ferjaðir til baka. Mörg stutt fræðslu- og umræðustopp og eitt nestisstopp.


 
Mán. 18. maí kl. 19:00. Gengið úr Brunnastaðahverfi með ströndinni í Voga, leiðina sem Vogabörn gengu í skólann í 70 ár, 4 km. Mæting við afleggjarann af Vatnsleysustrandarvegi að Suðurkoti í Brunnastaðahverfi (vel merktur).


 
Mán. 25. maí kl. 16:00. Gengið úr Vogum að eyðibýlinu Brekku undir Vogastapa og endað við gamla veginn yfir Vogastapa nálægt Grímshól. Gengið með strönd og yfir sand á fjöru um svæði sem kemur mikið við sögu í bókum Jóns Dan. Mæting við Stóru-Vogaskóla í Vogum kl. 16.

 
Lesefni fyrir þá sem vilja undirbúa sig:
 
Bækur Jóns Dan, einkum þessar þrjár: 
1919 - árið eftir spönsku veikina. Önnur, þriðja og fjórð ganga eru um sögusvið hennar. 
Atburðirnir á Stapa, einkum 4. ganga.
Sjávarföll,  einkum 4. gangan.
Árni Óla 1961. Strönd og Vogar   
Ágúst Guðmundsson 1942. Þættir af Suðurnesjum.  
Sesselja Guðmundsdóttir 2007. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.  
Fornleifaskýrslur tvær sem komnar eru út geta nýst í öllum ferðunum, vantar að vísu þriðju og síðustu skýrsluna sem er m.a. um Brunnastaðahverfið.
  Þungar  í niðurhali (um 300 Mb) en glöggar lýsingar, ljósmyndir og teikningar.

Aðalskipulagskortið - skásta kortið á netinu.
Guðrún Lovísa (Lúlla) segir frá veru sinni í Brunnastaðaskóla upp úr 1930, mynd tekin á grunni skólans. 
 
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024