Söfnunarfé afhent kirkjunni í Grindavík
Undanfarin tvö ár hafa nemendur unglingastigs, 7.-10. bekkja í Grunnskólanum safnað andvirði jólagjafar litlu jólanna í skólanum saman og gefið til góðs málefnis.
Á litlu jólunum hefur í gegnum tíðina skapast sú hefð að nemendur gefa hverjir öðrum lítinn jólapakka. Í fyrra vaknaði sú hugmynd að í stað jólapakkanna greiddu nemendur andvirði jólagafarinnar í sjóð sem notaður yrði til að styrkja gott málefni. Að þessu sinni var ákveðið að láta upphæðina sem safnaðist renna til kirkjunnar sem notar féð til að styrkja þá sem minna mega sín.
Elínborg Gísladóttir sóknarprestur tók við peningunum úr hönd Lárusar Guðmundssonar formanns nemendaráðs sem afhenti þá fyrir hönd nemenda í Grunnskólanum ásamt meðlimum nemendaráðs. Elínborg þakkaði fyrir framlagið. „Það er mikilvægt að finna velvilja og að nemendur séu tilbúnir að líta til þeirra sem minna mega sín og þurfa á aðstoð að halda. Aðventan er tími sem við hugsum um samhjálp og að standa saman. Þá er gott til þess að vita að nemendur á unglingastiginu hafi vitund um að til sé fólk sem þurfi á aðstoð að halda,“ sagði hún af þessu tilefni.
Grunnskóli Grindavíkur