Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Söfnuðu yfir einni milljón króna fyrir félag langveikra barna
Meðlimir Sleipnis MC ásamt Árný Ingvarsdóttur framkvæmdastjóra Umhyggju og Þórunni úr stjórn Umhyggju
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
föstudaginn 9. september 2022 kl. 10:00

Söfnuðu yfir einni milljón króna fyrir félag langveikra barna

Þann 11. ágúst hélt vélhjólaklúbburinn Sleipnir MC Keflavík af stað í fjögurra daga hringferð um landið á vélhjólum til styrktar Umhyggju, félags langveikra barna. Ferðin heppnaðist vel og þakklætið og gleðin leyndi sér ekki alla ferðina. Í heildina safnaðist yfir eina milljón króna, jafnframt er verið að selja bíl og mun allur ágóðinn af honum renna beint til Umhyggju. 

Ferðin hófst með ferðakveðju frá Séra Fritz þann 11. ágúst, lagt var af stað frá Keflavík en alls voru mótorhjólin þrjú og einn bíll sem hófu ferðina þaðan. Á Grindavíkurafleggjara bættist eitt hjól við en það bilaði strax á fyrstu metrunum. „Fall er fararheill þar sem þetta var eina bilunin alla ferðina,“ segir Davíð Þór Peñalver, Sleipnismaður. Eftir að búið var að laga hjólið var förinni heitið að Sleipni MC í Reykjavík þar sem bættust enn og aftur við fjögur hjól. Mótorhjólakapparnir héldu alla leið á Akureyri með stuttum stoppum hér og þar á leiðinni, meðal annars á leikskóla í Borgarnesi og alltaf bættust hjól við. Á Akureyri tók Bílanaust vel á móti hópnum með grillveislu í boði Kjarnafæðis. Eftir langan dag gisti hópurinn í bústað á vegum skátafélagsins á Akureyri. 

Á öðrum degi spiluðu Sleipnismenn brennó við meistaraflokk KA í handbolta og kíktu á mótorhjólasafnið á Akureyri. Þaðan var farið á leikskóla þar sem börnin fengu að skoða hjólin hjá hópnum. Ferðin hélt svo áfram alla leið að Eskifirði með tilheyrandi stoppum hér og þar. „Frá Egilsstöðum yfir á Eskifjörð fylgdi okkur faðir langveiks stráks, sem var þýðingavert þar sem þetta var allt gert til styrktar félags langveikra barna. Þriðji dagurinn byrjaði svo á því að við hittum þann sem hjólaði með okkur og syni hans þrjá, meðal annars þann sem er langveikur. Þeir höfðu mjög gaman af því að skoða og máta öll hjólin. Pabbinn hjólaði svo með okkur yfir á Breiðdalsvík þar sem leiðir okkar skildu og við héldum áfram alla leið að Höfn þar sem við fórum í fullt af leikjum og keppnum og gistum í íþróttahúsinu“ segir Davíð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Sleipnismenn spiluðu brennó við handboltalið KA

Síðasti dagur ferðarinnar byrjaði snemma og má segja að veðrið hafi sett strik í reikninginn en hópurinn slapp vel. „Eftir komu okkar á Kirkjubæjarklaustri kom Suðurnesjamaður að okkur og spyr hvort við hefðum lent í hagléli á leiðinni, svo var ekki og virtumst við hafa rétt sloppið við það. Stuttu seinna sjáum við eldingar og heyrum þrumur. Við sluppum líka við það, okkur til mikillar gleði,“ segir Davíð. Á þeim vegarkafla sem eftir var frá Vík að klúbbhúsi Sleipnis MC í Reykjavík bættust þó nokkrir hjólarar með í hópinn. „Á Hvolsvelli biðu okkar nokkrir hjólarar og á Hellu biðu okkar nokkrir hjólarar í viðbót og sumir með farþega. Frá Hellu fóru fimmtán hjól og á Selfossi biðu okkar fimm hjól í viðbót. Þaðan lá leiðin inn í Kópavog en hjá Rauðavatni biðu okkar þrjú lögregluhjól sem fylgdu okkur alla leið í Kópavoginn  og tryggðu að allir kæmust saman með því að loka gatnamótum þannig hópurinn tvístraðist ekki,“ segir Davíð. Eftir vel heppnaða ferð eru Sleipnismenn sáttir með góða þátttöku og undirtektir og þakka öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum.

Sleipnismenn á „lokasprettinum“